Enski boltinn

Fjórði úrslitaleikurinn hjá ensku unglingalandsliði í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lukas Nmecha fagnar marki með enska unglingalandsliðinu.
Lukas Nmecha fagnar marki með enska unglingalandsliðinu. Vísir/Getty
Sumarið 2016 var ekki gott fyrir enska landsliðið í fótbolta enda enginn okkar búin að gleyma því þegar íslenska landsliðið sendi þá ensku heim af EM með skottið á milli lappanna. Englendingar voru ekki stoltir af landsliðum sínum fyrir ári en árið 2017 gefur fulla ástæðu til mikillar bjartsýni.

Það er nefnilega eins og næstum því allt gangi upp hjá enskum yngri landsliðinu þetta sumarið. Hælspyrna á þriðju mínútu í uppbótartíma tryggði enska 19 ára landsliði Englendinga sæti í úrslitaleik EM U-19.

Lukas Nmecha, leikmaður Manchester City, skoraði eina markið í undanúrslitaleik Englands og Tékklands. Með því tryggði hann enska 19 ára landsliðinu sæti í úrslitaleiknum á móti Portúgal. Portúgal vann 1-0 sigur á Hollandi í hinum undanúrslitaleiknum.

Það verður fjórði úrslitaleikurinn hjá ensku unglingalandsliði í ár. 20 ára landsliðið vann HM U-20 eftir 1-0 sigur á Venesúela í úrslitaleik. Enska liðið vann einnig Toulon-mótið í júní og 17 ára landsliðið komast alla leið í úrslitaleikinn á EM U-17.

Til viðbótar við alla þessa úrslitaleiki þá komst 21 árs landsliðið í undanúrslitaleik á HM U-21 en varð þá að sætta sig við tap í vítakeppni á móti Þýskalandi.

Enska 19 ára landsliðið hefur tvisvar áður komist í úrslitaleik á EM U-19 en enskir urðu að sætta sig við tap í bæði hin skiptin, fyrst 2005 á móti Frökkum og svo 2009 á móti Úkraínu. Það kemur í ljós um helgina hvort liðið bætir Evrópumeistaratitli við heimsmeistaratitilinn sem 20 ára liðið vann í Suður-Kóreu á dögunum.


Tengdar fréttir

Everton-maður tryggði Englandi fyrsta HM-titilinn frá 1966

Enska tuttugu ára landsliðið í fótbolta tryggði sér í dag heimsmeistaratitilinn í U20 eftir 1-0 sigur á Venesúela í úrslitaleik heimsmeistaramótsins sem fór fram í Suður-Kóreu. Sumarið 2017 ætlar að verða miklu betra en sumarið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×