Erlent

Telur að Bretland geti verið hluti af Evrópusambandinu án þess að taka þátt í frjálsu flæði vinnuafls

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Tony Blair telur að Bretar þurfi að endurskoða úrsögn sína úr Evrópusambandinu.
Tony Blair telur að Bretar þurfi að endurskoða úrsögn sína úr Evrópusambandinu. Vísir/AFP
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, telur að möguleiki sé að eiga aðild að Evrópusambandinu án þess að taka þátt í frjálsu flæði fólks sem hefur lengi verið eitt af grundvallaratriðum aðildar. Þetta sagði hann í viðtali við BBC í morgun.

Tony Blair nefndi að önnur aðildarríki deili áhyggjum Breta í innflytjendamálum og væru ef til vill tilbúin í málamiðlanir. Nefnir hann sérstaklega Frakka og Þjóðverja í því samhengi.

Blair telur einnig að mikill vilji sé fyrir breytingum hvað varðar almannatryggingar og breytingar sem snúa að þeim sem koma til Evrópu án atvinnu.

„Tími umbóta er að hefjast í Evrópu. Út frá viðræðum mínum við evrópska leiðtoga get ég sagt að áhugi er fyrir breytingum sem gætu komið til móts við Bretland. Þar með talið í málefnum frjáls flæðis fólks,“ segir Blair.

Blair nefndi einnig að aðstæður í Evrópu væru frábrugðnar þeirri stöðu sem var uppi þegar gengið var til kosninga. Nefndi hann sérstaklega kosningasigur Macron og hans flokks. 

„Ég lofa því ekki að það sé hægt að semja um þessi mál, ég er einfaldlega að segja að það sé möguleiki á að Bretland gæti orðið hluti af breyttu Evrópusambandi,“ segir Blair.

Í síðustu viku sagði Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í Brexit viðræðunum, að ekki væri hægt að semja um frjálst flæði fólks, varnings, þjónustu og fjármagns.

Bretland hefur áður samið um undanþágur frá samningum Evrópusambandsins með misgóðum árangri. Cameron reyndi til að mynda að semja um frjálst flæði vinnuafls fyrir Brexit-kosningarnar og tryggði hann Bretum réttindi til að takmarka greiðslur til atvinnubóta. Ekki var þó staðið við loforð Íhaldsflokksins um takmarkanir á kröfum til að senda barnabætur erlendis. Einnig tókst ekki að semja um að gera erlent vinnuafl frá ríkjum ESB ekki gjaldgengt í umsóknum til velferðabóta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×