Erlent

Fyrsta konan til að hljóta virt stærðfræðiverðlaun látin langt fyrir aldur fram

Kjartan Kjartansson skrifar
Mirzakhani lauk doktorsprófi frá Harvard-háskóla árið 2004.
Mirzakhani lauk doktorsprófi frá Harvard-háskóla árið 2004. Vísir/EPA

Maryam Mirzakhani, íranski stærðfræðingurinn sem varð fyrsta konan til þess að hljóta Fields-verðlaunin í stærðfræði, lést í gær, aðeins fertug að aldri. Banamein Mirzakhani var brjóstakrabbamein.

Stanford-háskóli, þar sem Mirzakhani starfaði, tilkynnti um andlát hennar. Mirzakhani fæddist 3. maí árið 1977. Hún ólst upp í Teheran, höfuðborg Írans, en fluttist til Bandaríkjanna árið 1999 til nema við Harvard-háskóla.

Sjá einnig: Fyrsta konan til að hljóta Fields-verðlaunin

Sem stærðfræðingur stundaði hún meðal annars kennilegar rannsóknir á flóknum rúmfræðilegum lögunum og hreyfingu billjardkúlna um yfirborð, að sögn Washington Post.

Fields-verðlaunin sem Mirzakhani hlaut árið 2014 eru afhent á fjögurra ára fresti. Þau eru af mörgum talin æðstu verðlaun í stærðfræði.

Eins og að vera týnd í frumskógi
Í viðtali þegar hún hlaut verðlanin sagðist Mirzakhani njóta sín til hins ítrasta þegar hún væri að leysa stærðfræðilegar þrautir.

„Þetta er eins og að vera týndur í frumskógi og reyna að nota alla vitneskju sem þú getur til að finna nýjar lausnir. Með svolítilli heppni ratarðu kannski út,“ sagði hún.

Mirzakhani lætur eftir sig eiginmann og sex ára gamla dóttur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira