Erlent

Abu Bakr al-Baghdadi 99 prósent á lífi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Baghdadi sást síðast á opinberum vettvangi í Mósúl árið 2014.
Baghdadi sást síðast á opinberum vettvangi í Mósúl árið 2014. Vísir/AFP
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, er ekki látinn. Þetta fullyrti Lahur Talabany, yfirmaður í hersveitum Kúrda í Írak, í samtali við Reuters. Á dögunum greindu samtökin Syrian Observatory for Human Rights frá því að Baghdadi væri að öllum líkindum fallinn frá og var það ekki í fyrsta skipti sem slíkar fréttir berast. Samtökin hafa hins vegar getið sér góðan orðstír fyrir nákvæmni.

„Baghdadi er klárlega á lífi. Hann er ekki dáinn. Við höfum fengið upplýsingar um að hann sé á lífi. Við erum 99 prósent viss um það,“ sagði Talabany og bætti því við að hann væri einkar fær í að fela sig enda með reynslu af því frá því að hann var í al-Kaída hryðjuverkasamtökunum.

Talabany sagði að afar erfitt yrði að hafa uppi á leiðtoga hins svokallaða íslamska ríkis. „Landsvæðið sem þeir stýra enn er afar torfært. Það er enn ekki komið að endalokum íslamska ríkisins. Jafnvel þótt þeir hafi tapað nær allri Mósúl og séu við það að tapa Rakka í þokkabót.“

Að sögn Kúrdans væri ISIS nú að laga sig að breyttum aðstæðum. Það myndi taka þrjú til fjögur ár að útrýma samtökunum algjörlega þar sem þau myndu nú flýja upp í fjöll og út í eyðimerkur. Þaðan myndu samtökin gera skyndiárásir og meðal annars beita sjálfsmorðssprengjum í auknum mæli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×