Innlent

Hækka fasteignagjöld á Airbnb-bústaði í Grímsnesi

Benedikt Bóas skrifar
Það eru gríðarlega mörg sumarhús í Grímsnesi og borga þau himinhá fasteignagjöld - sérstaklega ef húsið er skráð á Airbnb.
Það eru gríðarlega mörg sumarhús í Grímsnesi og borga þau himinhá fasteignagjöld - sérstaklega ef húsið er skráð á Airbnb. Vísir/HAG
„Græðgin er yfirgengileg hjá sveitarfélaginu,“ segir Birna Sigurðardóttir, sumarbústaðareigandi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Vegna þess að Birna leigir eitt herbergi á Airbnb hafa fasteignagjöldin hækkað um 109 þúsund á ári.

Alls borgar Birna 309 þúsund krónur í fasteignagjöld af sumarhúsinu en 192 þúsund af húsinu sínu í Mosfellsbæ. Þar fær hún malbik, póstinn heim, ruslafötur eru tæmdar og fleira. En samkvæmt henni er rotþróin ekki einu sinni losuð í bústaðnum. Þjónustan hafi ekkert aukist þrátt fyrir hækkunina.

Yfir þrjú þúsund sumarhús eru í Grímsnes- og Grafningshreppi og eru lágmarksfasteignagjöld 200 þúsund krónur fyrir hvert hús. Þau hækka ef bústaðurinn er merktur Airbnb. Eftir að lögum um heimagistingu var breytt innheimtir hreppurinn fasteignagjöld þótt aðeins eigi að leigja út í nokkra daga.

Sölvi Melax, formaður Samtaka um skammtímaleigu á heimilum, SSH, segir að Grímsnes- og Grafningshreppur telji að breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald stangist á við lög um tekjustofna sveitarfélaga. Hreppurinn muni því hækka fasteignagjöld hjá þeim sem sæki um heimagistingu.

Sölvi Melax.
Sölvi segir SSH leggja áherslu á að félagsmenn sínir fari að settum lögum og reglum varðandi skatta og gjöld. En þegar sveitarfélögin fari ekki sjálf eftir lögum og reglum og auki gjöld á einstaklinga sé alveg ljóst í þeirra huga að fólk muni ekki skrá sig. Það valdi því að tilgangi laganna um heimagistingu verði ekki náð. Fólk muni hugsa sig tvisvar um ef fasteignagjöldin hækka fjórfalt við það að skrá eign i skammtímaleigu.

Sölvi segir að hreppurinn sé að hunsa nýju lögin. „Ef sveitarfélög eru að vinna svona er það skrýtið og í reynd eru þetta ríki og sveitarfélög að slást sín á milli. Þetta er furðulegt mál í alla staði,“ segir hann.

Í greinargerð frá lögfræðistofunni Landslögum segir að framganga hreppsins sé ólögleg og fari gegn skýrum vilja löggjafans eins og það er orðað. Ekki náðist í Ingibjörgu Harðardóttur, sveitarstjóra í Grímsnes- og Grafningshreppi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×