Erlent

Fundu 27 linsur í auga einnar konu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Augnlæknar á Bretlandi ráku upp stór augu þegar þeir fundu 27 linsur í auga konu í nóvember síðastliðnum.
Augnlæknar á Bretlandi ráku upp stór augu þegar þeir fundu 27 linsur í auga konu í nóvember síðastliðnum. Vísir/Getty
Læknar á Solihull sjúkrahúsinu í Bretlandi fundu, sér til mikillar furðu, 27 augnlinsur í auga konu í nóvember síðastliðnum. Konan, sem er 67 ára gömul, var á leið í aðgerð vegna skýs á auga þegar læknar rákust á linsurnar. Konan hafði talið að þurrkur í auga og elli væri valdurinn af óþægindum í auganu.

Rupal Morjaria, sérfræðinemi í augnlækningum við Solihull, lýsti atvikinu í grein í læknaritinu BMJ. Þar segir að konan hafi ekki kvartað undan neinum sjóntruflunum fyrir aðgerðina. Deyfingarlæknir fann linsurnar þegar hann undirbjó deyfingu á konunni.

„Hann setti spegil inn í augað til að halda því opnu á meðan hann deyfði og hann tók eftir bláum klumpi undir efra augnloknu,“ sagði Morjaria í samtali við CNN.

Klumpurinn umræddi reyndist vera 17 augnlinsur. Hinar tíu fundust við frekari skoðun á auganu.

„Við vorum öll agndofa,“ sagði Morjaria. „Við höfum aldrei séð neitt þessu líkt.“

Mál fyrir heimsmetabækurnar

Thomas L. Steinemenn, talsmaður Samtaka augnlækna í Bandaríkjunum, segist hafa fengið til sín sjúklinga með eina linsu fasta í auga, en aldrei 27.

„Þetta virðist eiga heima í heimsmetabókunum, að því er ég best veit,“ segir Steinemann.

Konan hafði notast við mánaðarlinsur í 35 ár en ekki er vitað hvenær linsurnar fóru að safnast saman í auga hennar. Í samtali við lækna sagðist hún stundum ekki hafa fundið linsur þegar hún ætlaði að fjarlægja þær. Hún hafi hins vegar gert ráð fyrir að hafa misst þær einhvers staðar, ekki að þær væru að safnast saman undir augnlokinu.

Morjaria segir að hún og meðhöfundar hennar hafi viljað vekja athygli á mögulegum afleiðingum þess að notast við augnlinsur án þess að fara reglulega til augnlæknis. Ef fólk viti að það hafi ekki tekið úr sér linsu og fái sérkennilega tilfinningu í augað sé best að leita læknisaðstoðar.

Steinemann segir að einkenni fastrar linsu séu stingur eða kláði í auga. Hann segir að mjúkar linsur, líkt og þær mánaðarlinsur sem konan notaði, geti virkað eins og einskonar svampur til að draga í sig bakteríur sem eykur líkur á sýkingu í auga.

Aðgerð konunnar var frestað vegna sýkingarhættu, segir Morjaria. Hún hafi komið aftur tveimur vikum seinna, liðið mun betur og farið í aðgerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×