Erlent

O.J. Simpson sækir um reynslulausn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
O.J. Simpson var dæmdur í 33 ára fangelsi árið 2008 með möguleika á reynslulausn að níu árum liðnum.
O.J. Simpson var dæmdur í 33 ára fangelsi árið 2008 með möguleika á reynslulausn að níu árum liðnum. Vísir/Getty
Fjórir meðlimir í nefnd Nevada ríkis um reynslulausn munu á fimmtudaginn taka ákvörðun um hvort fangi númer 1027820 skuli hljóta reynslulausn. Fanginn sem um ræðir er O.J. Simpson, fyrrverandi ruðningskappi, sem situr í fangelsi fyrir misheppnaða ránstilraun í Las Vegas í september árið 2007.

Simpson var sýknaður árið 1995 af ákæru fyrir morðið á fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Brown Simpson og vini hennar Ron Goldman. Réttarhöldin yfir Simpson á tíunda áratugnum eru ein þau frægustu í sögu Bandaríkjanna. Enn hefur enginn verið dæmdur fyrir morðin á Brow Simpson og Goldman.

Samkvæmt tveimur fyrrum meðlimur nefndarinnar mun Simpson fá sömu meðferð og hver annar fangi, þrátt fyrir að hann sé fyrir löngu orðin alræmdur í Bandaríkjunum.

„Það er það sem er fallegt við þetta kerfi, það virkar eins fyrir alla,“ segir Dorla Salling, sem sat í nefnd um reynslulausn á árunum 2000-2009. „Það skiptir engu máli hvað þú heitir.“

Almannaálit skipti engu

Réttarhöldin yfir O.J. árið 1995 eru gjarnan kölluð „réttarhöld aldarinnar“ í fjölmiðlum vestanhafs og vöktu þau aftur mikla athygli á síðasta ári þegar sjónvarpsþættirnir American Crime Story: The People v. O.J. Simpson og heimildarmyndin O.J: Made in America, komu út og hlutu fjölda verðlauna.

En áhugi almennings á máli Simpson mun ekki hafa áhrif á mat nefndarinnar, segir Thomas Patton, annar fyrrverandi meðlimur hennar.

„Þau eru að skoða þennan tiltekna glæp sem hann var fangelsaður fyrir í Nevada,“ segir Patton. „Ég held ekki að heimildarmyndir eða sjónvarpsþættir, það kæmi mér mjög á óvart ef það hefði áhrif á mat nefndarinnar.“

Árið 2008 var Simpson dæmdur í fangelsi fyrir að vopnað rán á hótelherbergi í Las Vegas. Hann hafði brotist inn ásamt fimm öðrum mönnum og lagt hald á ýmsa muni sem hann taldi vera sína eign, meðal annars fótbolta, veggplatta og myndir af börnum hans.

Ákæran yfir honum var í 12 liðum og var hann meðal annars dæmdur fyrir mannrán og vopnað rán. Hann var dæmdur í 33 ára fangelsi með möguleika á reynslulausn eftir níu ár.

Nefndin mun rannsaka hegðun Simpson á meðan hann hefur afplánað dóminn og spyrja hann um framtíðaráform, meðal annars hvar hann hygst búa ef hann fær lausn. Ef nefndin kemst ekki að einróma niðurstöðu og neitar Simpson reynslulausn gæti hann setið inni til ársins 2022.

„Þau þurfa að gera það sem þau telja rétt og hunsa álit almennings,“ segir Salling. „Það er svo mikilvægt að koma eins fram við alla. Það er það sem þetta fólk gerir allan daginn alla daga.“

Hér fyrir neðan má sjá myndefni frá því O.J. Simpson var sýknaður árið 1995. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×