Erlent

Hundruð drengja beittir ofbeldi í áratugi í kórskóla

Samúel Karl Ólason skrifar
Fórnarlömbin segja veruna í Regensburger Domspatzen kórskólanumnum hafa verið eins og að vera í „fangelsi, helvíti og í útrýmingarbúðum“.
Fórnarlömbin segja veruna í Regensburger Domspatzen kórskólanumnum hafa verið eins og að vera í „fangelsi, helvíti og í útrýmingarbúðum“. Vísir/AFP
Minnst 547 ungir drengir voru beittir líkamlegu ofbeldi og misnotaðir kynferðislega um sextíu ára tímabili í kórskóla í Þýskalandi. Í nýrri rannsóknarskýrslu eru 49 meðlimir kaþólsku kirkjunnar sakaðir um að beita drengi ofbeldi og þar af níu sakaðir um kynferðislegt ofbeldi. Brotin eru sögð hafa átt sér stað á árunum 1945 og fram á tíunda áratug síðustu aldar.

Fórnarlömbin segja veruna í Regensburger Domspatzen kórskólanumnum hafa verið eins og að vera í „fangelsi, helvíti og í útrýmingarbúðum“. Ólíklegt er að nokkur verði ákærður vegna hinna meintu brota sökum þess hve langt er síðan þau eru framin. Hins vegar hafa rannsakendur borið kennsl á þá.

Lögmaðurinn Ulrich Weber, sem stýrði rannsóknarnefndinni sem skoðaði málið, segir þó að ekki hafi verið hægt að ræða við fjölda fyrrverandi nemenda skólans og að hann teldi að í raun hefðu um 700 drengir orðið fyrir ofbeldi, samkvæmt frétt BBC.



Núverandi forsvarsmenn skólans hafa ekki tjáð sig um þessar ásakanir.

Weber sagði þó að hægt væri að kenna Georg Ratzinger um að hafa ekki gripið inn í og litið fram hjá ofbeldinu. Ratzinger, sem er 93 ára gamall, stýrði skólanum frá 1964 til 1994. Hann er eldri bróðir Benedikts páfa, fyrrverandi.

Sjálfur neitar Ratzinger því að hann hafi haft nokkra vitneskju um ofbeldið og segir það „aldrei hafa verið rætt“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×