Innlent

Eyrbekkingar stoltir af altaristöflu sem máluð er af Danadrottningu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Altaristaflan barst Eyrarbakkakirkju að gjöf frá dönsku konungshjónunum árið 1891.
Altaristaflan barst Eyrarbakkakirkju að gjöf frá dönsku konungshjónunum árið 1891. Stöð 2/Einar Árnason.
Eyrbekkingar státa af því að varðveita einu altaristöfluna á Íslandi sem máluð er af drottningu, en Kristján níundi Danakonungur og Louise drottning hans færðu hana Eyrarbakkakirkju að gjöf árið 1891.

Þessi merka altaristafla var sýnd í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum „Ísland í sumar“ en þar var farið um Eyrarbakka í fylgd Magnúsar Karels Hannessonar, síðasta oddvita Eyrarbakkahrepps. 

Eyrarbakkakirkja þótti stór þegar hún var vígð árið 1890 en árið eftir barst henni óvenjuleg gjöf; sending frá Kaupmannahöfn. Í pakkanum var altaristafla sem máluð var af Louise, drottningu Kristjáns níunda Danakonungs, þess sem færði Íslendingum stjórnarskrána að gjöf árið 1874.

Altaristaflan sýnir Krist gefa samversku konunni vatn að drekka við Jakobsbrunninn.
Altaristaflan sýnir Krist við Jakobsbrunninn þar sem hann hittir samversku konuna, sem er að sækja sér vatn, og hann segir við hana: 

„Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu.“ 

Magnús telur víst að þetta sé eina altaristaflan á Íslandi sem máluð er af drottningu. 

„Þannig að þetta er mjög einstakt. Þannig að við erum náttúrlega ákaflega stoltir, Eyrbekkingar, að fá að varðveita þetta merka verk Louise drottningar.“

Magnús Karel Hannesson við Húsið á Eyrarbakka.Stöð 2/Einar Árnason.
Í þættinum var einnig litið inn í Húsið, annað djásn Eyrarbakka, fjallað um einstaka götumynd þorpsins, um verslunarsögu staðarins og tæpt á sögu Litla-Hrauns. Hér má sjá þáttinn um Eyrarbakka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×