Erlent

Tveir sóttir með þyrlu eftir að skyndiflóð varð í Cornwall

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Í kringum fimmtíu eignir urðu fyrir tjóni.
Í kringum fimmtíu eignir urðu fyrir tjóni. vísir/getty
Sækja þurfti tvo menn með þyrlu eftir að þrumuveður í Cornwall-sýslu á Englandi leiddi til meiriháttar flóða. Á samskiptamiðlinum Twitter hefur slökkviliðið í Cornwall beðið fólk vinsamlegast um að halda sig frá svæðinu. Frá þessu er greint á Sky News.

Zoe Holmes, framkvæmdastjóri strandhótels í Coverack sagði í viðtali við Sky News þetta hefði allt saman verið stórfurðulegt. Fyrst hafi komið haglél og það næsta sem hún vissi var sem himnarnir hefðu opnast og stöðugur vatnsflaumur dundi yfir. 

Holmes sagðist eiga hús í þorpinu og að yfirborð vatnsflatarins, í námunda við húsið, næði henni upp að hnjám. Hún sagðist þá einnig hafa séð vatn flæða út um gluggana á nokkrum húsum. „Þetta er eins og eitthvað úr kvikmynd.“

Sveitastjórnin í Cornwall hefur tilkynnt um að í kringum fimmtíu eignir hefðu orðið fyrir tjóni og þá hefði vegurinn til Coverack auk þess orðið fyrir talsverðum skemmdum. Enginn hefði aftur á móti slasast í skyndiflóðinu.

Samkvæmt nýjustu fréttum af svæðinu, þar sem mesta vatnsveðrið var, er ástandið að batna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×