Erlent

Yfirmaður franska hersins hættir vegna niðurskurðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Emmanuel Macron og Pierre de Villiers.
Emmanuel Macron og Pierre de Villiers. Vísir/EPA
Yfirmaður hefafla Frakklands hefur sagt upp starfi sínu vegna deilna við Emmanuel Macron, forseta landsins, um niðurskurð. Ríkisstjórn Frakklands tilkynnti mikinn niðurskurð í síðustu viku, sem ætlað er að draga úr halla ríkissjóðs. Þá komu upp deilur á milli Macron og hershöfðingjans Pierre de Villiers.

Villiers segist ekki lengur geta tryggt þann herafla sem að væri Frakklandi nauðsynlegur til að verja landið og fólkið. Hann sagðist hafa lengi reynt að ganga úr skugga um að herinn gæti unnið sífellt erfiðara starf innan þess fjárlagaramma sem í boði væri, en það væri ekki hægt lengur.

Eftir tilkynningu ríkisstjórnar Macron fór Villiers á fund þingmanna og mótmælti niðurskurðinum, sem er um 850 milljónir evra (rúmir hundrað milljarðar króna), harðlega.

„Ég læt ekki taka mig svona í bakaríið. Ég er kannski heimskur en ég veit þegar það er verið að spila með mig,“ sagði Villiers, samkvæmt Reuters.

Macron svaraði fyrir sig með því að gera hershöfðingjanum ljóst að hann væri yfirmaður hans.

„Ef yfirmaður heraflans og forsetinn eru ósammála um eitthvað, þá þarf yfirmaður heraflans að fara,“ sagði Macron, samkvæmt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×