Innlent

Raunhæfar hreinsunaraðgerðir erfiðar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Slökkviliðsmenn settu mengunarvarnabúnað í Grafarlæk
Slökkviliðsmenn settu mengunarvarnabúnað í Grafarlæk Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vinnur hörðum höndum að því að finna upptök olíumengunar í Grafarlæk sem rennur í Grafarvog og spillir þar náttúru og setur fuglalíf í hættu. Þá er viðgerð á skólphreinsistöðinni við Faxaskjól lokið og fer skólp ekki lengur óhindrað í sjóinn.

Enn hefur engin skýring fundið á olíumengun í Grafarlæk sem rennur í Grafarvoginn en eins og sjá mátti í dag var þónokkur olíubrák yfir læknum sem hefur smitað bakkana mikið. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vinnur hörðum höndum að því að finna upptök mengunarinnar og hafa fengið Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins til þess að setja upp mengunarvarnabúnað.

Olíumengunin er sjáanleg með fram norðurströndinni í fjörum Grafarvogs en svæðið er mikið útivistarsvæði og í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að fólki stafi ekki hætta af menguninni en þó nokkur sjón- og lyktamengun er á staðnum. Olía hefur sest í gróður og getur hún smitast í fatnað sé fólk að fara um svæðið. 

Ein af útrásunum sem renna í Grafarlæk flytur vatn úr niðurföllum í austasta hluta Hálsa-hverfis og frá Grafarholti. Eins og sjá mátti í dag er þó nokkur olía í læknum.

Vatnið sem rennur í lækinn er regnvatnsrás og þegar úrkoma er mikil eins og í gær og um helgina eykst flæði í gegnum rásina og skolast út af meiri hraða. Í báðum hverfum þaðan sem vatnið kemur eru iðnaðarfyrirtæki.

„Það lítur ekki vel út því núna er heilmikil olía að skolast þarna niður, það er að segja olía sem er í rauninni á svæðinu að við teljum. Það var greinilega slæmt og stórt óhapp, sennilega rétt fyrir helgi,“ segir Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Starfsmenn Veitna og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur reyna að rekja mengunina og biðla til almennings hafi það upplýsingar um hvaðan mengunin kemur að láta vita til að flýta fyrir rannsókn málsins. Áfram verður fylgst vel með svæðinu.

„Ef að þetta var eitthvað eitt tilfelli sem er löngu yfirstaðið þá er mjög erfitt að finna það,“ segir Snorri.

Er hægt að fara í raunhæfar aðgerðir við að hreinsa svæðið?

„Það er snúið. Það mun sennilega að mestu leita þurfa að hreinsa sig sjálft sem að tekur tíma en með þessum aðgerðum í læknum erum við að stemma stigum við að það fari mikið meira en nú þegar hefur farið út í fjöru,“ segir Snorri. 

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×