Enski boltinn

Chelsea kaupir Morata frá Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alvaro Morata í leik með spænska landsliðunum.
Alvaro Morata í leik með spænska landsliðunum. Vísir/Getty
Englandsmeistarar Chelsea hafa náð samkomulagi við Real Madrid um kaup á framherjanum Alvaro Morata en þetta kemur fram í enskum fjölmiðlum í kvöld.

Alvaro Morata á eftir að standast læknisskoðun og semja um kaup og kjör en félögin eru búin að semja um kaupverðið.  Sky Sports hefur heimildir fyrir því að kaupverðið sé í kringum 70 milljónir punda.

Morata hefur verið orðaður við nokkur af stærstu liðum ensku úrvalsdeildinnar  í sumar en hann var ekki með fast sæti í liði Real Madrid á síðasta tímabili.

Real Madrid hafði lánað Morata til Juventus tímabilið á undan en hann náði að skora 20 mörk fyrir Real Madrid á síðasta tímabili þrátt fyrir að byrja oftast á varamannabekknum.  Morata skoraði 15 mörk í 26 deildarleikjum með Real og 3 mörk í 9 leikjum í Meistaradeildinni.

Alvaro Morata er 24 ára gamall og verður fjórði leikmaðurinn sem Chelsea kaupir í sumar. Áður hafði félagið fengið til sín miðjumanninn Tiemoue Bakayoko, markvörðinn Willy Caballero og varnarmanninn Antonio Rudiger. Chelsea er því búið að styrkja sig á öllum stöðum.

Morata hefur unnið meistaratitil undanfarin þrjú tímabil, 2015 og 2016 með Juventus og 2017 með Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×