Innlent

Fiskeldi megi ekki vaxa of hratt

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Í fyrra var rúmlega fimmtán þúsund tonnum af eldisfiski slátrað hér á landi. Það er metframleiðsla í fiskeldi. Vöxturinn var yfir áttatíu prósent á milli ára. Gert er ráð fyrir miklum vexti í greininni á næstu árum.
Í fyrra var rúmlega fimmtán þúsund tonnum af eldisfiski slátrað hér á landi. Það er metframleiðsla í fiskeldi. Vöxturinn var yfir áttatíu prósent á milli ára. Gert er ráð fyrir miklum vexti í greininni á næstu árum. vísir/pjetur
Fiskeldi hefur reynst mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf í dreifbýli í nágrannaríkjum Íslands og er ekki ósennilegt að áhrifin gætu orðið þau sömu hér. Hins vegar verða stjórnvöld og fiskeldisfyrirtæki að stíga varlega til jarðar. Ekki er ráðlegt að ana að neinu. Þetta er mat Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands.

Daði Már bendir í samtali við blaðið á að fiskeldi hafi verið stærsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu á landsbyggðinni í Noregi og haft afar jákvæð áhrif á byggðaþróun. Ástæðan sé að hluta til sú að atvinnugreinin sé á margan hátt stöðugri en til dæmis fiskveiðar. Hún byggi einnig á annars konar þekkingu, skapi annars konar störf sem eru oft eftirsóknarverð og leiði af sér umfangsmikla afleidda starfsemi.

Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.vísir/gva
Sem dæmi um áhrif atvinnugreinarinnar í Noregi má benda á að samkvæmt mati Norðmanna skapar hvert ársverk í fiskeldi um 2,7 milljónir norskra króna sem jafngildir um 33 milljónum íslenskra króna. Fjöldi ársverka í greininni, þ.e. eldi, vinnslu og sölu, var um 9.500 árið 2014 en afleidd ársverk reyndust rúmlega 19 þúsund. Allt í allt voru því ársverkin um 28.500.

„Þetta er lyftistöng fyrir þessi samfélög. Og það er í sjálfu sér ástæða til að vera jákvæður gagnvart fiskeldi sem grundvallaratvinnugrein á Íslandi eins og annars staðar.“

Hins vegar þurfi fiskeldismenn og stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Ýmis þjóðhagslegur kostnaður fylgi atvinnugreininni. „Umhverfisáhrifin af fiskeldi eru umtalsverð. Þau eru mjög vandlega staðfest í nágrannalöndunum og það er einnig vandlega staðfest að þeir sem hafa slakað verulega á kröfum í umhverfismálum hafa iðulega séð eftir því til lengri tíma litið. Við ættum að láta það verða lexíu fyrir okkur.“

Hann bendir einnig á að sérfræðingar í fiskeldi hafi slegið því föstu að sjávarhiti við strendur Íslands sé á mörkum þess að vera nægilega hár, sérstaklega yfir vetrartímann. Það sé líklegt til þess að valda vandræðum sem taka þurfi tillit til, svo sem verulegum áföllum eða hærri framleiðslukostnaði vegna þess að afföll yfir veturinn verði meiri hér á landi en í samkeppnisríkjunum.

„Þá þurfa menn að hafa í huga að fiskeldi krefst mikillar fjárbindingar og framlegðin er yfirleitt frekar lítil. Hún er mjög mikil núna, og margir eru að græða vel, en vanalega hefur verð á laxi fylgt framleiðslukostnaði. Og Ísland á erfitt með að keppa á slíkum mörkuðum vegna þess að við búum að jafnaði við hærri fjármagnskostnað og óstöðugri gjaldmiðil en samkeppnislöndin. Þetta eru allt áhættuþættir sem þarf að huga að enda geta þeir orðið uppbyggingunni til trafala,“ segir hann.

Daði Már segir að uppbyggingin í fiskeldi hafi tekið langan tíma í nágrannalöndunum, svo sem Noregi og Færeyjum. „Vöxturinn hjá Norðmönnum hefur að jafnaði verið um tíu prósent á ári og tvöfaldast framleiðslan þannig á rúmlega sjö ára fresti. Færeyjar hafa upplifað mikinn vöxt í fiskeldi og þar hefur meðaltalsvöxturinn verið um 6,5 prósent á ári. Framleiðslan tvöfaldast þannig á ellefu ára fresti.“

Hann telur óvarlegt að leggja til grundvallar að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig hér á landi en í Noregi, enda séu aðstæður í löndunum að mörgu leyti frábrugðnar. Hafa verði í huga að uppbyggingin taki tíma.

Til samanburðar má benda á að um fimmtán þúsund tonnum af eldisfiski var slátrað hér á landi í fyrra sem er aukning um áttatíu prósent frá fyrra ári. Gert er ráð fyrir miklum vexti á næstu árum og er talið að framleitt magn verði komið í um fjörutíu þúsund tonn árið 2020. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×