Körfubolti

Paul George orðinn samherji Westbrooks

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul George var valinn framfarakóngur NBA-deildarinnar 2013.
Paul George var valinn framfarakóngur NBA-deildarinnar 2013. vísir/getty
Það er nóg um að vera á leikmannamarkaðinum í NBA-deildinni í körfubolta þessa dagana.

Indiana Pacers hefur skipt stjörnuleikmanninum Paul George til Oklahoma City Thunder. Þar hittir hann fyrir verðmætasta leikmann NBA á síðasta tímabili, Russell Westbrook.

Í staðinn fyrir George fékk Indiana bakvörðinn Victor Oladipo og framherjann Domantas Sabonis frá Oklahoma.

Ekki er búist við því að George verði meira en eitt tímabil í herbúðum Oklahoma en flestir búast við því að hann fari til Los Angeles Lakers næsta sumar.

Hinn 27 ára gamli George var afar eftirsóttur eftir að tímabilinu lauk en hann var m.a. orðaður við Cleveland Cavaliers, Boston Celtics og Houston Rockets.

George var valinn númer 10 í nýliðavalinu 2010. Hann var kominn í hóp bestu leikmanna NBA þegar hann meiddist illa á æfingu með bandaríska landsliðinu sumarið 2014. George spilaði aðeins sex leiki með Indiana tímabilið á eftir.

Undanfarin tvö tímabil hefur George haldist heill og skilað flottu verki inni á vellinum. Á síðasta tímabili var hann með 23,7 stig, 6,6 fráköst og 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×