Viðskipti innlent

Fjórðungi meiri viðskipti en á sama tíma í fyrra

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kauphöll Íslands. Fréttablaðið/GVA
Kauphöll Íslands. Fréttablaðið/GVA
Heildarviðskipti með hlutabréf í Kauphöll Íslands námu 367,9 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Um er að ræða 27 prósenta aukningu milli ára en á sama tímabili árið 2016 námu heildarviðskipti 289,6 milljörðum króna. Á fyrstu sex mánuðum ársins hækkaði gengi úrvalsvísitölunnar um þrjú prósent.

„Ég held að ef eitthvað er, þá sé þetta meira en við áttum von á, miðað við nýskráningar,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar. „Þetta er umtalsvert meira en skýrist af nýjum félögum á markaði. Þetta er aukin virkni viðskipta. Ég held að það skipti töluverðu máli þarna aukinn áhugi erlendra aðila. Svo hefur verið gerjun í sumum geirum, nærtækt í olíu- og smásölugeiranum og fasteignamarkaðurinn á fullri ferð.“

Magnús Harðarson.
Í júnímánuði voru viðskipti mest með bréf Haga, Marels, N1 og Ice­landair Group. Í heildina hafa viðskipti verið mest með þau félög auk Reita á árinu.

Magnús segir þróun skuldabréfamarkaðarins ekki ánægjulega. „Þar er eiginlega erlendum fjárfestum haldið frá markaðnum. Það hefur sett mjög mark sitt á veltuna ekki bara í ár heldur líka í fyrra. Veltan á dag er núna og síðustu misseri um fimm milljarðar en var fyrir nokkrum árum átta milljarðar. Þetta góða efnahagsástand og aukni áhugi á Íslandi er ekki að sýna sig á skuldabréfamarkaðnum einfaldlega vegna bindingarskyldunnar.“

Magnús segist hafa áhyggjur af hvað bein þátttaka almennings er lítil en heilt yfir hafi þetta verið góður fyrri árshelmingur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×