Erlent

Juncker segir Evrópuþingmenn sýna Möltu lítilsvirðingu

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker í fámennum þingsal Evrópuþingsins fyrr í dag.
Jean-Claude Juncker í fámennum þingsal Evrópuþingsins fyrr í dag. Vísir/AFP
Einungis á fjórða tug Evrópuþingmanna voru viðstaddir til að ræða hálfs árs formennskutíð Möltu í ráðherraráðinu í þingsal Evrópuþingsins í Strassbourg í morgun. Formennskutíð Möltu lauk um mánaðamótin.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, var greinilega allt annað en ánægður með fámennið í þingsalnum og sagði það sýna að þingmönnum væri ekki alvara.

Antonio Tajani, forseti Evrópuþingsins, gagnrýndi þá Juncker og fór fram á að hann sýndi þinginu virðingu.

„Það er ekki hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að hafa eftirlit með Evrópuþinginu. Það er þingið sem á að hafa eftirlit með framkvæmdastjórninni,“ sagði Tajani sem varð nokkuð heitt í hamsi eftir að Juncker sagði þingið vera „hlægilegt“.

„Ég mun ekki koma aftur hingað á svona fund við þessar aðstæður. Þingið verður einnig að bera virðingu fyrir leiðtogum smærri aðildarríkja,“ sagði Juncker.

Malta er fámennasta aðildarríki Evrópusambandsins með um 440 þúsund íbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×