Viðskipti innlent

Hvetur til sameiningar tæknifyrirtækja

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Áætlaður meðaltekjuvöxtur tæknifyrirtækja innan sjávarklasans var fimm til tíu prósent í fyrra samkvæmt skýrslu Íslenska sjávarklasans.
Áætlaður meðaltekjuvöxtur tæknifyrirtækja innan sjávarklasans var fimm til tíu prósent í fyrra samkvæmt skýrslu Íslenska sjávarklasans. vísir/eyþór
Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans, hvetur til aukinnar samvinnu og jafnvel sameiningar lítilla tæknifyrirtækja í sjávarútvegi. Hann segir mörg þessara fyrirtækja bjóða afburðalausnir en sökum smæðar sinnar eigi þau erfitt um vik að vaxa og hasla sér völl á erlendum mörkuðum.

„Við sjáum gríðarleg tækifæri fyrir mörg þessara litlu tæknifyrirtækja til þess að auka samstarf sín á milli eða sameinast. Þau búa yfir afburðatækni og mikilli þekkingu en eðlilega standa þau nokkuð í stað vegna smæðarinnar. Þau hafa til dæmis ekki mikið bolmagn til þess að sinna markaðs- og kynningarmálum. Erlendir kaupendur óttast líka margir að þau geti ekki sinnt viðhaldi og þjónustu eins og vera ber,“ segir Þór í samtali við blaðið. Aukin samvinna fyrirtækjanna sé þeim afar mikilvæg ef þau hafi á annað borð áhuga á að vaxa frekar á komandi árum.

Í nýrri skýrslu Íslenska sjávarklasans um stöðu tæknifyrirtækja sem þjóna sjávarútvegi kemur fram að einkum stóru tæknifyrirtækin, svo sem Marel, Hampiðjan, Skaginn 3X og Valka, hafi vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum á meðan litlu fyrirtækin hafi í mesta lagi haldið í horfinu. Áætlað er að velta tæknifyrirtækja innan sjávarklasans hafi vaxið á bilinu fimm til tíu prósent í fyrra. Það er minni vöxtur en undanfarin ár en skýringuna má aðallega rekja til gengisstyrkingar krónunnar. Sum stór eða meðalstór tæknifyrirtæki juku veltu sína um þrjátíu til fjörutíu prósent á meðan minni fyrirtæki stóðu mörg hver í stað eða velta þeirra jafnvel dróst saman. Ætla má að heildarvelta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum nálgist sjötíu milljarða króna.

Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Íslenska sjávarklasans
Mestar áhyggjur fyrirtækjanna snúa að sterku gengi krónunnar, en mörg fyrirtækjanna eru með bróðurpart veltu sinnar í erlendri mynt. Samkeppnisstaða þeirra hafi af þeim sökum beðið hnekki. Þór bendir auk þess á að staða helstu viðskiptavina fyrirtækjanna hafi veikst vegna krónunnar. Versnandi afkoma með sterkara gengi sé til dæmis líkleg til þess að draga verulega úr fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja í nýrri tækni og búnaði.

Á móti komi að mörg tæknifyrirtækjanna, sér í lagi þau stærri, hafi eflst mjög á síðustu árum og bjóði lausnir sem séu að fullu sam­keppnis­hæfar. Þannig hafi þeim tekist að viðhalda góðri samkeppnis­stöðu á alþjóðlegum mörkuðum, þrátt fyrir sterkari krónu. „Það er auðvitað ánægjulegt á tímum sterkrar krónu,“ segir Þór.

Í skýrslunni kemur auk þess fram að mörg tæknifyrirtæki hafi víkkað út starfsemi sína og sinni nú í auknum mæli annarri matvælaframleiðslu. Fyrirtæki sem áður sinntu einungis sjávarútvegi bjóði nú sérstakar lausnir fyrir til dæmis kjúklinga- og svínaiðnaðinn. Sömu sögu sé að segja af vaxandi þjónustu tæknifyrirtækja við fiskeldi. Þór segir að mikil tækifæri felist í því fyrir íslensk tæknifyrirtæki að víkka með þessum hætti starfsemi sína út. Það krefjist þess þó að fyrirtækin auki samvinnu sín á milli, meðal annars í gegnum Íslandsstofu. 

Skaginn velti 4,3 milljörðum króna í fyrra

Velta hátæknifyrirtækisins Skagans, sem selur tækjabúnað fyrir matvælaiðnaðinn, einkum fiskvinnslu, jókst um 42 prósent í fyrra og nam um 4,32 milljörðum króna. Hagnaður fyrirtækisins dróst saman um eitt hundrað milljónir á árinu og nam 248,4 milljónum króna og þá var EBITDA, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, 409,3 milljónir króna, samkvæmt nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins.

Eignir fyrirtækisins voru 1,8 milljarðar í lok síðasta árs en þær jukust um 26 prósent á milli ára. Var eiginfjárhlutfallið 29,4% í árslok. Meðalfjöldi stöðugilda var 84 á árinu.

Skaginn er í eigu félagsins I.Á. Hönnunar sem er að öllu leyti í eigu Ingólfs Árnasonar, framkvæmdastjóra og stofnanda fyrirtækisins. Fær félagið greiddar 250 milljónir króna í arð í ár.

Fyrr á árinu var tilkynnt um að fyrirtækin Skaginn, 3X Technology ásamt Þorgeiri og Ellert verði í framtíðinni kynnt undir sameiginlegu vörumerki, Skaginn 3X.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×