Erlent

Vinátta í verki komin yfir 35 milljónir

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Húsum skolaði út á sjó þegar flóðbylgjan gekk yfir Nuugaatsiaq.
Húsum skolaði út á sjó þegar flóðbylgjan gekk yfir Nuugaatsiaq. Arktisk Kommando/Palle Lauritsen
Yfir 35 milljónir króna hafa nú safnast í landssöfnuninni Vinátta í verki, í þágu fórnarlamba hamfaranna á Grænlandi um miðjan síðasta mánuð. Fjórir fórust og gríðarlegt eignatjón varð þegar flóðbylgja gekk yfir smáþorpið Nuugaatsiaq, aðfararnótt 18. júní.

Hvert íslenska sveitarfélagið af öðru leggur söfnuninni lið, og er markmiðið að öll sveitarfélögin 74 myndi eins konar kærleikskeðju hringinn um landið, og þakki þannig Grænlendingum sem efndu til landssöfnunar þegar snjóflóðið mikla féll á Súðavík 1995.

Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Reykjanesbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Seyðisfjörður bættust í dag í hóp þeirra 22 sveitarfélaga sem þegar hafa lagt söfnuninni lið.
Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Reykjanesbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Seyðisfjörður bættust í dag í hóp þeirra 22 sveitarfélaga sem þegar hafa svarað kallinu.

Kim Kielsen forsætisráðherra Grænlands hefur nú lýst því yfir að Nuugaatsiaq verði mannlaust að minnsta kosti í eitt ár. Grunnskóli þorpsins, rafstöðin og verslunin voru meðal þeirra bygginga sem aldan ógurlega hrifsaði til sín, auk einbýlishúsanna. Íbúarnir, sem voru innan við hundrað, eru flestir í Uummannaq, 1.400 manna bæ í grenndinni.

Mánudaginn 19. júní tóku Hjálparstarf kirkjunnar, Kalak og Hrókurinn höndum saman um landssöfnunina Vinátta í verki til að senda strax þau skilaboð til vina okkar á Grænlandi að í Íslendingum ættu þeir vini í raun. Fénu verður varið í þágu íbúa Nuugaatsiaq í samvinnu við fólkið sjálft, sveitarfélagið og þá aðila sem munu hjálpa fórnarlömbunum að byggja upp líf sitt að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×