Golf

Leik flýtt hjá Ólafíu vegna veðurs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Fjórði keppnisdagur á Thornberry Creek Classic-mótinu á LPGA-mótaröðinni hefst fyrr en áætlað var vegna slæmrar veðurspár í Wisconsin síðdegis.

Ólafía kláraði klukkan 22.15 að íslenskum tíma í gærkvöldi en hefur leik að nýju klukkan 14.39 í dag, klukkan 9.39 að staðartíma.

Sýnt verður frá mótinu á Stöð 2 Sport 4 í dag og hefst útsendingin klukkan 18.00. Útsendingin er aðgengileg fyrir áskrifendur Golfstöðvarinnar.

Veður hefur þegar sett strik í reikninginn á mótinu en fresta þurfti leik vegna þrumuveðurs á öðrum keppnsidegi. Var Ólafía í hópi þeirra kylfinga sem náðu ekki að klára annan hringinn sinn fyrr en á þriðja keppnisdegi.

Ólafía spilaði vel í gær. Hún lék alls 24 holur og fékk á þeim níu fugla, tólf pör og þrjá skolla. Hún er á tíu höggum undir pari samtals og aðeins þremur höggum frá þriðja sæti.

Katherine Kirk frá Ástralíu var hins vegar á mikilli siglingu í gær og spilaði á 65 höggum. Hún er á samtals 20 höggum undir pari, fjórum höggum á undan næsta kylfingi - Ashleigh Buhai frá Suður-Afríku.

Fylgst verður með gengi Ólafíu í dag á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×