Erlent

Fjölskyldan segir hryðjuverkamanninn ekki kynþáttahatara

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hátt í hundrað viðbragðsaðilar voru kallaðir út.
Hátt í hundrað viðbragðsaðilar voru kallaðir út. vísir/epa
Minnst einn lést og níu slösuðust í hryðjuverkaárás tæplega fimmtugs Breta í London í gær. Fjölskylda mannsins segir að hann hafi lengi glímt við veikindi. Hann væri hins vegar ekki kynþáttahatari.

Árásin átti sér stað fyrir utan mosku í Finsbury-hverfinu í norðurhluta London skömmu eftir miðnætti. Hinn látni var á gamalsaldri og hafði verið sjúkur fyrir. Hin slösuðu voru að veita honum aðhlynningu þegar ekið var á þau. Nokkur hinna særðu eru lífshættulega særð.

Árásarmaðurinn heitir Darren Osborne og er breskur fjögurra barna faðir á fimmtugsaldri. Hann var handtekinn á staðnum. Sjónarvottar segja að ímam úr moskunni hafi komið í veg fyrir að æstur múgur réðist á hann. Osborne á rætur að rekja til Cardiff í Wales. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum í borginni í tengslum við árásina.

„Við erum í algjöru áfalli. Þetta er ótrúlegt og við höfum ekki almennilega áttað okkur á því sem gerðist,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu mannsins. „Hann hefur bara glímt við vandamál í langan tíma. Hann er ekki kynþáttahatari.“

„Í morgun vöknuðu íbúar Bretlands við fregnir af enn einni hryðjuverkaárásinni á götum höfuðborgar okkar. Þetta er önnur árásin í þessum mánuði og er hún jafn mikið áfall og þær sem á undan hafa komið,“ sagði Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, í gærmorgun.

„Þetta er árás sem beint var gegn venjulegum og saklausum Bretum í hinu daglega amstri. Að þessu sinni gegn breskum múslimum á leið frá mosku.“

„Þegar hann kom út úr bílnum vildi hann hlaupast á brott. Hann sagði ítrekað að hann vildi drepa múslima,“ segir sjónarvotturinn Abdul Raman við BBC. „Ég hæfði hann í magann og í kjölfarið vorum við nokkrir sem héldum honum niðri þar til lögreglan kom á vettvang.“

Öryggismálaráðherrann Ben Wallace segir að maðurinn hafi ekki verið talinn ógn af leyniþjónustunni og þá væri ekkert sem benti til þess að hann ætti sér samverkamenn. Hann bætti því við að árásin hefði verið skilgreind sem hryðjuverk átta mínútum eftir að hún átti sér stað. 


Tengdar fréttir

Árásarmaðurinn í London nafngreindur

Maðurinn sem grunaður er um árásina við mosku í Finsbury Park í London í gærkvöldi hefur verið nafngreindur. Samkvæmt heimildum BBC-fréttastofunnar heitir maðurinn Darren Osborne, 47 ára, og er búsettur í grennd við Cardiff í Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×