Enski boltinn

United hefur varann á gagnvart Ronaldo til að missa ekki af Morata

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er nú sagður vera að reyna að styrkja stöðu sína hjá Real Madrid.
Cristiano Ronaldo er nú sagður vera að reyna að styrkja stöðu sína hjá Real Madrid. vísir/getty
Manchester United hefur varann á gagnvart öllum fréttum af mögulegri endurkomu Cristiano Ronaldo til félagsins því það vill ekki lengja félagaskiptasögu Álvaro Morata enn frekar. Þetta herma heimildir ESPNFC.

Ronaldo er sagður vilja komast burt frá Real Madrid og burt frá Spáni eftir að hann var ákærður fyrir skattalagabrot en hann er sakaður um að hafa stungið 1,6 milljón evra undan skatti.

Fram hefur komið að Ronaldo sé áhugasamur um endurkomu til Manchester United en Paris Saint-Germain er einnig líklegur áfangastaður fari svo að Portúgalinn yfirgefi Real MAdrid.

Heimildamenn innan herbúða Manchester United segja félagið ekki enn þá trúa því að Ronaldo vilji virkilega fara. Talið er að hann sé að styrkja stöðu sína enn frekar hjá Real Madrid áður en réttarhöldin hefjast í júlí.

Talið hefur verið að Ronaldo vilji að Real Madrid borgi sekt sem hann þarf kannski að greiða spænska skattinum en Florentino Pérez, forseti spænska félagsins, hefur nú þegar hafnað þeim fréttaflutningi.

Manchester United hefur verið á höttunum eftir Álvaro Morata, leikmanni Real Madrid, í tæpar þrjár vikur og vill José Mourinho landa framherjanum áður en haldið er áfram með draumórana um endurkomu besta fótboltamanns heims.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×