Enski boltinn

Costa búinn að segja Atlético að hann vilji koma aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonio Conte vill ekki halda Diego Costa.
Antonio Conte vill ekki halda Diego Costa. vísir/getty
Diego Costa, framherji Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, er búinn að láta forráðamenn Atlético Madrid vita að hann vilji koma aftur til félagsins, samkvæmt heimildum Sky Sports.

Costa opinberaði 8. júní að hann fékk skilaboð frá Antonio Conte, knattspyrnustjóra Chelsea, um að hann sé ekki í framtíðaráformum hans hjá enska félaginu og því þarf hann að finna sér nýtt lið.

Ef Costa fer aftur til Atlético getur hann ekki hafið leik með liðinu fyrr en í janúar þegar félagaskiptabannið sem það var úrskurðað í rennur út.

Þessi 28 ára gamli framherji skoraði 20 mörk í 35 leikjum fyrir Chelsea á síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni en José Mourino keypti hann til félagsins frá Atlético fyrir þremur árum síðan.

„Antonio Conte er búinn að senda mér skilaboð þess efnis að ég á mér ekki framtíð hjá Chelsea. Hann sagðist ekki reikna með mér á næstu leiktið. Þetta er synd og skömm,“ sagði Costa við fréttamenn í síðasta landsliðsverkefni Spánar.

Costa skaust upp á stjörnuhimininn sem leikmaður Atlético Madrid en hann spilaði með liðinu frá 2010-2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×