Erlent

Ökumaður sem lést í sjálfstýrandi Teslu hunsaði ítrekaðar viðvaranir

Kjartan Kjartansson skrifar
Rafbílaframleiðandinn Tesla býður upp sjálfstýribúnað í bílum sínum.
Rafbílaframleiðandinn Tesla býður upp sjálfstýribúnað í bílum sínum. Vísir/EPA
Tölvukerfi Tesla-rafmagnsbifreiðar sem var á sjálfstýringu varaði ökumanninn sex sinnum við með hljóðtilkynningu að hann ætti að taka við stýrinu áður en hann skall á vöruflutningabíl á miklum hraða í fyrra. Slysið var fyrsta banaslysið þar sem sjálfstýrandi bíll kom við sögu.

Rannsóknarnefnd bandarískra yfirvalda hefur komist að því að ökumaðurinn fékk sex hljóðviðvaranir auk þess sem sjö tilkynningar birtust í mælaborði bílsins síðustu mínúturnar fyrir áreksturinn. Slysið átti sér stað nærri Williston í Flórída í maí í fyrra.

Sjálfstýringarbúnaður er í Tesla-bifreiðum en fyrirtækið gerir engu að síður þá kröfu að ökumenn séu með hendur á stýri allan tímann sem sjálfstýringin er í gangi.

Loka á ökumenn sem hunsa viðvaranir ítrekað

Gögn úr bílnum sýndu hins vegar að ökumaðurinn hafði ekki haft hendur á stýri 90% af hinstu ökuferðinni, að því er segir í frétt Washington Post

Jók hann jafnvel hraðann tveimur mínútum fyrir slysið. Þegar hann rakst á flutningabílinn var hann á yfir 110 km/klst. Ökumaðurinn gerði enga tilraun til að bremsa, stýra eða forða árekstrinum.

Sjá einnig:Ný uppfærsla Tesla gerir bílinn nánast sjálfkeyrandi

Slysið hefur vakið mikla athygli enda sjálfstýrandi og sjálfkeyrandi bílar enn nýir af nálinni. Talið er að niðurstaða rannsóknarinnar á orsökum þess geti haft áhrif á afstöðu almennings til sjálfkeyrandi bifreiða.

Eftir slysið uppfærði Tesla hugbúnaðinn. Hunsi ökumenn öryggisviðvaranir sjálfstýribúnaðsins ítrekað slekkur bíllinn á honum. Ekki er þá hægt að nota sjálfstýringuna þar til bíllinn er ræstur aftur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×