Erlent

Lík Salvador Dalí grafið upp

Atli Ísleifsson skrifar
Spænski málarinn Saldador Dalí árið 1971.
Spænski málarinn Saldador Dalí árið 1971. Vísir/AFP
Dómari í spænsku höfuðborginni Madríd hefur úrskurðað að lík málarans Salvador Dalí skuli grafið upp til að komast að niðurstöðu í faðernismáli.

Spænska konan Maria Pilar Abel Martínez hefur fullyrt að málarinn hafi átt í ástarsambandi við vinnukonu árið 1955 og að hún hafi komið þar undir.

Dómarinn sagði að það væru engar leifar eða aðrir persónulegir munir sem hægt væri að nýta til að komast yfir lífsýni úr málaranum sem lést á Spáni árið 1989, 85 ára gamall. Því þurfi að grafa lík hans upp.

Dalí er jarðsettur í heimabæ sínum Figueres í Katalóníu.

Í frétt BBC segir að Martínez starfi við að lesa úr tarotspilum fyrir fólk og hafi fyrst fullyrt að Dalí væri faðir hennar árið 2015. Sagði hún að móðir hennar hafi starfað sem vinnukona fjölskyldu sem dvaldi um tíma í bænum Cadaqués, í næsta húsi við hús málarans.

Dalí var á þessum tíma giftur Gala, en Gala Dalí stofnunin hefur enn ekki tjáð sig um úrskurð dómarans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×