Erlent

Fyrrverandi kosningastjóri Trump þáði milljónir frá flokki vilhöllum Rússum

Kjartan Kjartansson skrifar
Paul Manafort hefur unnið sem málafylgjumaður fyrir vafasama erlenda einstaklinga um árabil.
Paul Manafort hefur unnið sem málafylgjumaður fyrir vafasama erlenda einstaklinga um árabil. Vísir/EPA
Ráðgjafarfyrirtæki Pauls Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Donalds Trump, þáði 17,1 milljón dollara frá úkraínskum stjórnmálaflokki sem er hallur undir Rússa yfir tveggja ára tímabil. Fyrirtækið hefur látið skrá sig sem útsendara erlends ríkis afturvirkt.

Tengsl Manafort við Rússland eru á meðal þess sem Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, skoðar nú. Manafort er annar náinn bandamaður Trump sem hefur skráð sig sem útsendari erlends ríkis en áður þurfti Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi, að gefa upp störf sín í þágu Tyrklands.

Manafort vann að því að hafa áhrif á stefnu bandarískra stjórnvalda í garð Úkraínu fyrir Héraðsflokkinn samkvæmt frétt Washington Post. Hann var ráðgjafi Viktors Janúkovitsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, sem flúði til Rússlands árið 2014.

Bandarísk lög kveða á um að þeir sem starfa fyrir erlendar ríkisstjórnir eða flokka í Bandaríkjunum þurfa að gefa það upp opinberlega og skrá sig sem útsendara erlendra ríkja.

Hætti eftir ásakanir um vafasamar greiðslur í Úkraínu

Manafort tók við forystu forsetaframboðs Trump vorið 2016 en hætti í ágúst eftir fréttir um að um nafn hans hefði komið fyrir í skrá sem fannst yfir óuppgefnar milljóna dollara greiðslur Héraðsflokksins í Kænugarði. Hann hefur neitað því að hafa gert nokkuð saknæmt.

Auk úkraínska flokksins hefur Manafort unnið fyrir erlenda harðstjóra í gegnum tíðina, þar á meðal Ferdinand Marcos, fyrrverandi forseta Filippseyja, og Jonas Savimbi, angólska skæruliðaforingjann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×