Innlent

Titringur innan Viðreisnar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra er formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra er formaður Viðreisnar.
Hópur innan Viðreisnar hefur kallað eftir því að aukalandsþing verði haldið til að hægt sé að kjósa um forystu flokksins og leggja línurnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor. Ágreiningur er innan flokksins um hvort það sé ákjósanlegt eður ei.

Viðreisn er ungur flokkur en stofnfundur hans var haldinn fyrir rétt rúmum þrettán mánuðum. Fyrsta landsþing hans fór fram í lok septembermánaðar í fyrra. Í lögum flokksins segir að landsþing skuli haldin á tveggja ára fresti en þó sé stjórn flokksins heimilt að boða til auka landsþings þegar þurfa þyki. Á auka landsþingi er heimilt að kjósa um embætti formanns og varaformanns.

Flokkurinn hefur lýst því yfir að hann hyggi á framboð í sveitarstjórnarkosningunum en heimildarmenn Fréttablaðsins, úr röðum Viðreisnar, telja að fólk veigri sér við að bjóða fram fyrir flokkinn við núverandi ástand.

Stefna flokksins í málum sveitarfélaga liggi ekki fyrir og ekki liggi í augum uppi hvernig flokkurinn ætli að marka sér sérstöðu. Sömu heimildarmenn segja að nokkurrar beiskju gæti einnig vegna illa ígrundaðra yfirlýsinga formannsins í fjölmiðlum undanfarnar vikur.

Af þeim flokksmönnum, sem vilja flýta landsþingi og Fréttablaðið ræddi við, eru nokkrir sem telja rétt að kosið verði um forystu flokksins. Með því móti fái núverandi forysta aukið umboð eða nýtt fólk taki við og ráði för í kosningunum næsta vor.

„Það lýsir ekki vantrausti þó rætt sé um að flýta þinginu. Það getur þvert á móti orðið til þess að styrkja stöðu forystunnar. Hins vegar ætti það ekki að koma neinum á óvart að flokksmenn flokks sem mælist með um fimm prósent ræði þetta,“ segir einn Viðreisnarmaður sem Fréttablaðið ræddi við. Að óbreyttu fer landsþing flokksins fram í upphafi næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×