Viðskipti innlent

Einkaneyslan heldur áfram að aukast

Sæunn Gísladóttir skrifar
Kringlan.
Kringlan. Vísir/Vilhelm
Vöxtur einkaneyslu reyndist sjö prósent á fyrsta ársfjórðungi. Frá fjórða ársfjórðungi 2015 hefur vöxturinn legið á bilinu 5,7 prósent til 7,7 prósent og meðaltalið verið 6,7 prósent. Vöxturinn á fyrsta fjórðungi nú er því ívið yfir því meðaltali. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Í henni segir að vöxtur einkaneyslu komi ekki á óvart. Hann sé í samræmi við nýja hagspá bankans, en þar er gert ráð fyrir að einkaneysla aukist um 7,2 prósent yfir árið í heild.

Hagvöxtur mældist fimm prósent á fyrsta ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung árið áður. Þetta er nokkuð minni vöxtur á tólf mánaða grundvelli en verið hefur síðustu tvo fjórðunga.

Þannig var hagvöxtur 11,3 prósent á fjórða fjórðungi síðasta árs og 9,6 prósent á þriðja ársfjórðungi. Þetta er þó meiri vöxtur en var á fyrsta og öðrum fjórðungi síðasta árs en þá lá vöxturinn á bilinu 3,5 til fjögur prósent. Þetta er minni vöxtur en Landsbankinn gerir ráð fyrir að verði fyrir árið í heild. Í nýuppfærðri spá hagfræðideildar fyrir tímabilið 2017 til 2019 er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 6,7 prósent á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×