Viðskipti innlent

Leiga íbúða hækkar um fimm prósent

Sæunn Gísladóttir skrifar
Félagsbústaðir eru félag að fullu í eigu Reykjavíkurborgar.  Félagið á, rekur og leigir út um 2.500 íbúðaeiningar í Reykjavík,
Félagsbústaðir eru félag að fullu í eigu Reykjavíkurborgar. Félagið á, rekur og leigir út um 2.500 íbúðaeiningar í Reykjavík, Vísir/GVA
Hækkun leiguverðs Félagsbústaða tekur gildi þann 1. ágúst næstkomandi. Hækkunin á leigu hjá Félagsbústöðum er fimm prósent en sértækur húsnæðisstuðningur hjá Reykjavík hækkar á sama tíma, mismunandi mikið eftir einstaklingum, þannig að til samans leiða þessar breytingar til þess að greiðslubyrði leigutaka hjá Félags­bústöðum helst að jafnaði óbreytt.

Félagsbústaðir voru reknir með miklum hagnaði á síðasta ári, en hann má að langstærstum hluta rekja til hækkunar á fasteignaverði. Ekki stendur til að innleysa þennan hagnað með sölu eigna eða aukinni skuldsetningu. Stefna Félagsbústaða er að fjölga íbúðum og mæta þannig þeirri miklu eftirspurn sem er eftir húsnæði hjá félaginu. 

Félagsbústaðir eru félag að fullu í eigu Reykjavíkurborgar.  Félagið á, rekur og leigir út um 2.500 íbúðaeiningar í Reykjavík, svo sem almennar félagslegar íbúðir, búsetukjarna og þjónustubúðir fyrir aldraða.  Félagsbústaðir eru ekki reknir í hagnaðarskyni og  öllum rekstrarafgangi er varið til að greiða niður lán og til uppbyggingar og viðhalds á íbúðum félagsins segir í tilkynningu frá Félagsbústöðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×