Fótbolti

Birkir: Var búinn að ákveða að ná þessum leik fyrir löngu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Birkir Bjarnason reynir skot í leiknum í kvöld.
Birkir Bjarnason reynir skot í leiknum í kvöld. Vísir/Ernir
Birkir Bjarnason spilaði sinn fyrsta leik í þrjá mánuði gegn Króatíu í kvöld eftir að hafa glímt við erfið meiðsli að undanförnu. Leikurinn í kvöld var ákveðinn gulrót í meiðslunum.

„Ég var búinn að ákveða að ná þessum leik fyrir löngu síðan. Það var alltaf stefnan að ná þessum leik og ég er hrikalega ánægður með að hafa gert það,“ segir Birkir í samtali við Vísi eftir leik.

Birkir var einn sex leikmanna sem sett hafði verið spurningarmerki við vegna meiðsla eða lítils spilatíma fyrir leik en það virtist hafa lítil sem enginn áhrif á leik liðsins.

„Það eru mjög margir sem hafa ekki verið að spila almennilega í nokkurn tíma, margir að koma úr meiðslum og að vinna þetta gríðarlega sterka lið, það er hrikalega gott,“ segir Birkir.

Þjálfarateymi liðsins breytti örlítið út af í leiknum í kvöld og stillti upp fimm manna miðju með Gylfa fyrir aftan Alfreð og hrósaði Birki Heimi Hallgrímssyni og þjálfurum liðsins eftir leik.

„Við vitum alveg hvernig við eigum að spila, alveg sama hvaða leikmenn eru inn á. Heimir og þeir eru alveg með þetta og við fórum vel yfir þetta. Það sást bara í dag, við spiluðum hrikalega vel,“ segir Birkir.

Sigurinn þýðir að Ísland og Króatía eru efst í riðlinum, jöfn að stigum en Tyrkland og Úkraína eru ekki langt undan. Birkir segir sigurinn sérstaklega sterkan í ljósi þess hversu jafn riðillinn er.

„Þetta er gríðarlega sterkur riðill. Fjögur hrikalega sterk lið. Það er sterkt að vera komnir í þessa stöðu. Hvert stig telur gríðarlega mikið og það er ótrúlega gott að hafa náð þessum þremur stigum.“


Tengdar fréttir

Heimir: Þetta var svo asnalegt mark

Heimir Hallgrímsson kom brosandi til móts við blaðamenn á fundi eftir 1-0 sigurinn í Laugardalnum í dag. Hörður Björgvin Magnússon skoraði sigurmarkið undir lok venjulegs leiktíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×