Innlent

Yngst íslenskra lækna til að verða doktor í skurðlækningum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Þrátt fyrir að Selfyssingurinn Guðrún Nína Óskarsdóttir sé ekki nema 29 ára gömul og tveggja barna móðir þá er hún orðinn doktor í skurðlæknisfræði, yngst íslenskra lækna. Eiginmaður Guðrúnar Nínu er líka læknir, pabbi hennar er læknir og tvær systur hennar eru læknar og bróðir hennar er með meistarapróf í lyfjafræði.

Guðrún Nína er fædd 1987, maðurinn hennar er Árni Sæmundsson sérnámslæknir í þvagfæraskurðlækningum. Börnin þeirra heita Guðjón Steinar 6 ára, og Sæmundur Óskar, 3 ára. Fjölskyldan býr í Lundi í Svíþjóð.  

Guðrún Nína kom nýlega til landsins til að verja doktorsritgerðina sína í Háskóla Íslands en Tómas Guðbjartsson brjóstholsskurðlæknir var leiðbeinandinn hennar. Nafnið á doktorsverkefninu er „Árangur skurðaðgerða við lungnakrabbameini á Íslandi - lífshorfur hjá undirhópum sjúklinga.“

„Við fundum upplýsingar um alla sjúklinga sem hafa gengist undir skurðaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi á síðustu 24 árum. Skammtímahorfur voru mjög góðar á Íslandi og langtímahorfur svipaðar og í sambærilegum erlendum löndum og spítölum.“

Guðrún Nína kemur úr læknafjölskyldu því pabbi hennar, Óskar Reykdalsson er læknir og systur hennar eru læknar, Sigríður Erla er augnlæknir og Margrét er barnataugalæknir. Þá er Guðjón bróðir hennar með meistarapróf í lyfjafræði. Mamma hennar er ekki læknir, hún er kennari.

„Þetta er áhugavert starf, maður lærir mikið og fær að hjálpa fólki í þeim vandamálum sem það er að glíma við. Þannig að ætli okkur finnist það ekki bara öllum, að þetta sé áhugavert og skemmtilegt og maður þarf að hugsa mikið og velta fyrir sér lausnum áður en maður framkvæmir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×