Menning

Það eru sögur í þessum verkum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Ég er kominn heim í bili og kann því vel, segir Þrándur sem hefur búið og starfað í Kaupmannahöfn síðustu ár.
Ég er kominn heim í bili og kann því vel, segir Þrándur sem hefur búið og starfað í Kaupmannahöfn síðustu ár. Vísir/Eyþór

„Það eru sögur í þessum málverkum. Hnitmiðaðar sögur,“ segir Þrándur Þórarinsson myndlistarmaður íbygginn, þar sem hann er að leggja lokahönd á undirbúning sýningarinnar Gustukaverk sem hann opnar á morgun, föstudag,  klukkan 17 í Galleríi Porti á Laugavegi 23b.

„Ég er kannski svolítið að stríða, aldrei þessu vant,“ bætir hann við kankvís. „Að minnsta kosti eru þrjú verk þannig að ég er að hæðast að fyrirtækjum hér í landinu.“

Þetta verk er tileinkað Arion banka.

Hér á hann við Arion banka annars vegar og Gamma Capital hins vegar því verk tileinkuð þeim verða á sýningunni.

Hann kveðst hafa boðið fyrirtækjunum þau til kaups, enda hafi þau verið stórtæk í kaupum á listaverkum. Reykjavíkurmyndir verða líka áberandi á sýningunni og á þeim öllum er eitthvað að gerast.

Gamma Capital er innblásturinn að þessu verki.

Þrándur er frá Akureyri en lærði málaralist hjá hinum norska listamanni Odd Nerdrum.

„Ég var hjá Odd í þrjú til fjögur ár, þá mestmegnis í gamla Borgarbóksafninu við Þingholtsstræti og svo eitt sumar á óðali hans í Noregi, ekta sveitasetri sem hann á enn. Það er alger paradís. Ég á góðar minningar þaðan.“

Hann segir allt hafa verið morandi í málandi ungmennum hvar sem hann fór í kringum setrið.

„Odd var með fullt af nemendum og þeir komu sér fyrir víða í skóginum með trönurnar,“ rifjar hann upp.

Lækjartorg heitir þessi mynd Þrándar. Þar er lækurinn eins og í árdaga.

Þrándur hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði hér á landi og erlendis og Gustukaverk er níunda einkasýning hans hér á landi. En hún er önnur sýningin af tveimur sem hann er að undirbúa núna. Hin verður úti í Kaupmannahöfn, nánar tiltekið í Nordatlantens Brygge.

„Þar er gríðarstór salur sem ég fæ á Kristjánshöfn, nálægt Kristjaníu. Þemað verður því bara Kristjanía hjá mér og ég mála hana í endurreisnarstíl. Mér fannst það skapa ágætar andstæður. Í Kristjaníu er skemmtilegt mannlíf og því liggur vel við að endurreisa staðinn. En sú sýning verður ekki opnuð fyrr en í maí á næsta vori svo það er næstum ár til stefnu.“

Nátthrafnar á Búllunni.

Kaupmannahöfn hefur verið heimahöfn og athafnastaður Þrándar síðustu fjögur ár.

„Ég elti barnsmóður mína til Köpen þegar hún komst þar inn í skóla en þegar hún lauk námi flutti ég heim með dóttur okkar,“ útskýrir hann. 

„Mamman flakkar milli landa en ég er kominn heim í bili og kann því vel.“
Fleiri fréttir

Sjá meira