Innlent

Bílstjóri Ferðaþjónustu fatlaðra sýknaður

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur snúið dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli manns sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn konu sem hann ók fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra.

Var honum gefið að sök að að hafa í byrjun árs 2013 í fjögur skipti haft samræði og önnur kynferðismök við konuna sem og að káfa innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum í bifreið á vegum ferðaþjónustunnar. Þannig hafi hann notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.

Í héraðsdómi var maðurinn sýknaður af þeim hluta ákærunnar sem laut að sakargiftum um samræði og önnur kynferðismök, en sakfelldur fyrir kynferðislega áreitni í eitt skipti þann 14. mars 2013.

Fræðast má frekar um niðurstöðu héraðsdóms hér.

Fyrir Hæstarétti undi konan héraðsdómi að því leyti sem sýknað var en krafðist þess að refsing karlsins yrði að öðru leyti þyngd.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að virtum gögnum málsins, að sá akstur sem maðurinn átti að sinna sem síðasta verkefni umrædds dags renndi engum stoðum undir það að hann hefði skilað konunni seinna á áfangastað en eðlilegt mætti telja miðað við þá umferð sem gera mætti ráð fyrir á umræddum tíma dags. Þá hefði akstursleið mannsins verið eðlileg með hliðsjón af fyrirliggjandi verkefnum.

Loks var vísað til þess að við flutning málsins í Hæstarétti hefði konan lýst því yfir að ekki væri víst að maðurinn hefði ekið henni 14. mars en atvik hefðu allt að einu getað gerst á öðrum degi.

„Að þessu gættu og með skírskotun til þess að þrjú ár hefðu liðið frá því að ætluð brot voru framin og þar til aðalmeðferð málsins fór fram í héraði, sem gerði það að verkum að framburður konunnar og vitna fyrir dómi var rýr um atvik máls, var ekki talin komin fram nægileg sönnun um að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann hafði verið sakfelldur fyrir í héraðsdómi, sbr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hann því einnig sýknaður af sakargiftum sem lutu að broti á 199. gr. almennra hegningarlaga,“ segir í dómi Hæstaréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×