Innlent

Vitni í manndrápsmáli fengið vernd lögreglu

Tveir sakborningar eru enn í gæsluvarðhaldi, þeir Sveinn Gestur Tryggvason og Jón Trausti Lúthersson.
Tveir sakborningar eru enn í gæsluvarðhaldi, þeir Sveinn Gestur Tryggvason og Jón Trausti Lúthersson. Vísir/Ljósmyndadeild
Vitni að árásinni í Mosfellsdal, sem leiddi til andláts Arnars Jónssonar Aspar, hafa sum hver fengið aðstoð lögreglu við að gæta öryggis síns. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við höfum brugðist við því ef fólk hefur talið sig þurfa á því að halda. Það hefur þurft að bregðast við slíku með einhverjum hætti já, það hefur komið til,“ segir Grímur aðspurður hvort vitni hafi fengið lögregluvernd í málinu.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að skuggalegir menn hafi heimsótt að minnsta kosti eitt vitni í málinu.

Fjórum sakborningum af sex var sleppt úr haldi lögreglunnar á fimmtudag. Eins og Fréttablaðið hefur greint frá voru þeir sakborningar líkast til ekki viðstaddir þegar mestu átökin fóru fram en vitni hafa lýst því að hafa séð Svein Gest Tryggvason stökkva á bak Arnars og taka hann hálstaki. Jón Trausti Lúthersson var einnig á svæðinu þegar mestur hiti var í árásinni.

Aðrir sakborningar voru handteknir á flótta frá heimili Arnars, þrír karlmenn á Vesturlandsvegi gegnt Korputorgi og ein kona við afleggjarann að heimreið Arnars.

„Þau voru ekki ofan í atvikinu þegar mestu átökin verða. Við erum að reyna að fá almennilegan framburð um allan þennan feril,“ segir Grímur um sakborningana fjóra sem var sleppt úr haldi.

Hvorki er komin lokaniðurstaða hjá réttarmeinafræðingi varðandi dánarorsök Arnars né hefur lögregla komist fyllilega til botns í því hvað varð til þess að sexmenningarnir fóru heim til Arnars og veittust að honum.

„Við erum að uppýsa um öll atriði sem gerast þarna upp frá en auðvitað er hluti af því sem við eigum að rannsaka, hver ástæða þess er að farið var af stað. Hver ásetningurinn var, af hverju fólkið var þarna.“ Grímur veit ekki hvenær lokaniðurstaða réttarmeinafræðings liggur fyrir.

Arnar Jónsson Aspar var jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í gær. Hann var 39 ára gamall og lætur eftir sig unnustu og tvær dætur, fjórtán ára og þriggja vikna gamlar. Í minningargreinum um Arnar í Morgunblaðinu í gær er honum lýst sem barngóðum fjölskyldumanni og traustum vini sem var bæði ljúfur og kærleiksríkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×