Innlent

Bíllinn í eigu Bílahallarinnar

Benedikt Bóas og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Leiðin sem maðurinn ók sést á þessu korti.
Leiðin sem maðurinn ók sést á þessu korti. grafík/garðar
Bíllinn sem endaði í Ölfusá er í eigu Bílahallarinnar-Bílaryðvörn sem Jón Ragnarsson, fyrrum rallýkóngur, á og rekur. Jón segir bílinn hafa verið í láni.

„Ég hafði meiri áhyggjur hvort að maðurinn hefði meiðst eða ekki. Hann virðist vera sæmilega heill. Annað veit ég ekki. En við berum ábyrgð á bílnum. Það er kannski fyrir mestu að hann fór í ána en ekki framan á einhvern bíl í öllum þessum látum,“ segir Jón en hann beið eftir símtali frá lögreglunni vegna frekari upplýsinga þegar fréttastofa náði tali af honum.

Ökumaður bílsins sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í Vogahverfi í Reykjavík um klukkan 10 í morgun og hófst eftirförin í kjölfarið. Ökumaðurinn keyrði inn á Sæbraut, þaðan inn Vesturlandsveg, upp Ártúnsbrekku og inn á Suðurlandsveg.

Reyndu að stöðva bílinn með naglamottu og snúa honum við

Svo ók hann sem leið lá til Selfoss, með smá krók í Norðlingaholti, en lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi tóku þátt í eftirförinni auk sérsveitar Ríkislögreglustjóra.

Reynt var að stöðva bílinn með naglamottu við Hveragerði en án árangurs og þar sem bíllinn ók of hratt var ekki hægt að stöðva hann með því að aka utan í hann. Þá var reynt að snúa ökumanninum við á milli Hveragerðis og Selfoss en án árangurs. 

Lögreglan brá því á það ráð að loka Ölfusárbrú þannig að ökumaðurinn gat ekki keyrt yfir hana. Þegar hann kom að brúnni ók hann því út í ána á fullri ferð vinstra megin við brúna. Bílinn rak þar undir Ölfusárbrú þar sem hann steytti á steini.

Maðurinn komst að sjálfsdáðum út úr bílnu og upp á þak hans þar sem hann komst í línu sem björgunarsveitarmenn köstuðu til hans frá brúnni. Hann beið svo á þaki bílsins þar til björgunarsveitarmenn á báti komu honum til bjargar.

Að sögn lögreglu var líðan mannsins eftir atvikum góð en hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans í Reykjavík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×