Erlent

Árásarmaðurinn í London nafngreindur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla athafnar sig við Finsbury Park í dag.
Lögregla athafnar sig við Finsbury Park í dag. Vísir/AFP
Maðurinn sem grunaður er um árásina við mosku í Finsbury Park í London í gærkvöldi hefur verið nafngreindur. Samkvæmt heimildum BBC-fréttastofunnar heitir maðurinn Darren Osborne, 47 ára, og er búsettur í Cardiff í Wales.

Osborne er talinn vera árásarmaðurinn sem keyrði sendiferðabíl á hóp múslima er þeir yfirgáfu moskuna við Finsbury Park í London að lokinni bænastund í gærkvöldi. Osborne er sagður hafa keyrt á fólkið þar sem það hópaðist saman til að hlúa að manni sem hneig niður fyrir utan moskuna.

Árásarmaðurinn var fyrst handtekinn vegna gruns um tilraun til manndráps en síðar á grundvelli hryðjuverkabrota. Breska lögreglan vinnur nú að húsleit á heimili í grennd við Cardiff en maðurinn hafði ekki verið undir eftirliti yfirvalda. Þá er hann talinn hafa verið einn að verki.

Lögregla við húsleit í Cardiff í dag.Vísir/AFP
Osborne ólst upp í Weston-super-Mare í grennd við ensku borgina Bristol. Hann er jafnframt fjögurra barna faðir. Osborne er sagður hafa öskrað ókvæðisorð um múslima og sagðist vilja drepa þá er hann ók á fólkið við moskuna í gærkvöldi.

Lögreglustjórinn í London, Cressida Dick, sagði árásina „mjög greinilega árás á múslima,“ og að nú mætti búast við aukinni öryggisgæslu á svæðinu, „sérstaklega í kringum trúarlegar stofnanir.“

Þetta er fjórða hryðjuverkaárásin í Bretlandi á þremur mánuðum en Theresa May, forsætisráðherra, sagði árásina „á allan hátt jafn sjúklega“ og hinar árásirnar þrjár.

Ráð múslima í Bretlandi hefur sagt að árásin hafi verið innblásin af hræðslu við íslam. Þá hafa forsvarsmenn moskunnar við Finsbury Park kallað eftir því að fólk haldi ró sinni en einn lést og tíu slösuðust í árásinni.


Tengdar fréttir

Einn látinn og átta slasaðir í London

Einn er látinn og átta slasaðir eftir að maður ók sendiferðabíl inn í hóp fólks fyrir utan mosku í norðurhluta Lundúna um miðnætti í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×