Erlent

Múslimastúlka myrt á leið heim af bænastund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nabra Hassanen var myrt í bænum Sterling í Virginíufylki í Bandaríkjunum.
Nabra Hassanen var myrt í bænum Sterling í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Skjáskot/Google Maps
Darwin Martinez Torres er grunaður um morðið á stúlkunni.Vísir/AFP
Nabra Hassanen, sautján ára unglingsstúlka, fannst látin í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum á sunnudag en tilkynnt hafði verið um hvarf hennar þá um morguninn. Darwin Martinez Torres er grunaður um morðið á henni en hann var leiddur fyrir rétt í dag. Lögregluyfirvöld segja morðið ekki rannsakað sem hatursglæp. Reuters greinir frá.



Martinez, sem er 22 ára gamall, var í bíl sínum er hann lenti í útistöðum við stúlkuna og vinkonur hennar rétt fyrir sólarupprás á sunnudag í bænum Sterling í Virginíufylki í Bandaríkjunum. Hann steig þá út úr bílnum og réðst á stúlkuna en hann var ákærður fyrir morðið á henni í dag.

Hassanen og vinkonur hennar voru á leið heim af næturlangri bænastund vegna Ramadan-hátíðarinnar sem nú stendur yfir.

„Það gerðist eitthvað og hann reiddist,“ sagði talsmaður lögreglunnar í Fairfax-sýslu, Tawny Wright. „Hópurinn tvístraðist aðeins. Það vildi svo til að fórnarlambið var næst honum og hann réðst á hana.“

Vinkonur stúlkunnar leituðu hjálpar í moskunni sem þær höfðu sótt um nóttina. Martinez var handtekinn nokkrum klukkutímum síðar en lík stúlkunnar fannst í nærliggjandi tjörn.

Don Beyer, þingmaður Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, vottaði fjölskyldu Hassanen samúð sína í dag.

Stúlkan, Nabra Hassanen, og vinkonur hennar eru sagðar hafa klæðst abaya, kjól sem telst til hefðbundins klæðnaðar múslimakvenna. Óttast er að Martinez hafi ráðist á Hassanen vegna þess að hún var múslimi.

Talsmaður lögreglu á svæðinu sem fer með rannsókn málsins þvertekur þó fyrir að morðið flokkist sem hatursglæpur.

„Ekkert bendir til þess að ráðist hafi verið á stúlkuna eða hópinn sem hún var í vegna þess hverjar þær eru eða hvaða trúarbrögð þær aðhyllast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×