Körfubolti

Slæmur endakafli og tap á móti Andorra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson.
Jón Axel Guðmundsson. Mynd/KKÍ
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta tapaði sínum öðrum leik á Smáþjóðaleikunum í San Marinó í dag þegar strákarnir töpuðu í spennuleik á móti Andorra.

Andorra vann leikinn 83-81 eftir að hafa unnið fimm síðustu mínútur leiksins 18-9.

Jón Axel Guðmundsson átti mjög flottan leik og skoraði 24 stig á 30 mínútum fyrir íslenska liðið. Það dugði hinsvegar ekki til.

Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason var með tvennu þriðja leikinn í röð en í dag var kappinn með 12 stig og 10 fráköst á 24 mínútum.

Íslenska liðið er nú ekki líklegt til að komst upp á pall á mótinu en liðið á enn eftir að mæta Svartfjallalandi og Lúxemborg.

Íslenska liðið tapaði fyrsta leik sínum á móti Kýpur en hann var spilaður innan við hálfum sólarhring eftir að íslensku strákarnir mættu til San Marinó eftir 48 tíma martraðarferðalag. Strákarnir náðu síðan að vinna sannfærandi sigur á heimamönnum í leik tvö í gær.

Íslenska liðið var einu stigi undir í hálfleik, 49-48. Íslenskur strákarnir lentu 9-3 undir og voru örlítið á eftir allan fyrri hálfleikinn.

Íslenska liðið endaði þriðja leikhlutann vel og var síðan sjö stigum yfir, 72-65, þegar fimm mínútur voru eftir. Andorramenn skoruðu þá níu stig í röð og komust yfir í 74-72.

Kári Jónsson setti niður þrist sem kom íslenska liðinu aftur yfir, 75-74, en Andorra átti alltaf svar og liðin skiptust á því að vera með forystuna á lokamínútunni.

Andorra var hinsvegar sterkara liðið í spennunni í lokin og landaði sigri. Þetta var annar sigur liðsins en Andorra vann San Marinó en tapaði illa fyrir Svartfjallalandi.

Atkvæðamestir í íslenska liðinu í leiknum:

Jón Axel Guðmundsson 24 stig, 6 fráköst

Tryggvi Snær Hlinason 12 stig, 10 fráköst

Kári Jónsson 11 stig

Gunnar Ólafsson 11 stig

Kristófer Acox 10 stig, 9 fráköst

Pétur Rúnar Birgisson 6 stig

Kristinn Pálsson 3 stig

Maciek Baginski 3 stig

Emil Karel Einarsson 1 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×