Enski boltinn

Tilboði Liverpool í Salah hafnað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Salah átti frábært tímabil með Roma.
Salah átti frábært tímabil með Roma. vísir/getty
Roma hafnaði 28 milljóna punda tilboði Liverpool í Mohamed Salah. Sky Sports greinir frá.

Þrátt fyrir að Roma hafi hafnað fyrsta tilboði Liverpool í Salah eiga félögin enn í viðræðum.

Salah, sem verður 25 ára síðar í mánuðinum, átti frábært tímabil með Roma í vetur og skoraði 15 mörk og gaf 11 stoðsendingar í 31 deildarleik. Roma endaði í 2. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og vann sér þátttökurétt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Salah gekk í raðir Chelsea í janúar 2014. Honum tókst þó aldrei að festa sig í sessi hjá Lundúnaliðinu og tækifærin voru af skornum skammti.

Salah var lánaður til Fiorentina seinni hluta tímabilsins 2014-15 og á tímabilið á eftir lék hann svo sem lánsmaður með Roma. Rómverjar voru ánægðir með frammistöðu Egyptans og keyptu hann frá Chelsea sumarið 2016.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vinnur nú að því að styrkja leikmannahóp liðsins. Liverpool er búið að semja við framherjann Dominic Solanke og þá hefur liðið áhuga á Virgil Van Dijk, varnarmanni Southampton.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×