Viðskipti innlent

Sameigendur á Landslögum gættu andstæðra hagsmuna

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Málið snerist um fasteignamat Hörpu.
Málið snerist um fasteignamat Hörpu. vísir/eyþór
Sameigendur á lögmannsstofunni Landslögum gættu andstæðra hagsmuna í Hæstaréttarmáli um fasteignamat Hörpu í febrúar í fyrra. Stjórn Lögmannafélags Íslands lagði málið fyrir úrskurðarnefnd lögmanna sem komst nýverið að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið brotið gegn lögum eða siðareglum lögmanna.

Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaðurvísir/anton brink
Málið á upphaf að rekja til þess að hæstaréttarlögmaðurinn Jóhannes Karl Sveinsson tók að sér að reka mál fyrir Hörpu í Hæstarétti, en í málinu krafðist Harpa þess að úrskurður yfirfasteignamatsnefndar um opinbert fasteignamat Hörpu yrði ógiltur. Til varnar voru Þjóðskrá Íslands og Reykjavíkurborg, en verjandi borgarinnar var Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sameigandi Jóhannesar á Landslögum. Lex lögmannsstofa rak málið fyrir Hörpu í héraði, þar sem félagið tapaði, en þegar rúm vika var eftir af gagnaöflunarfresti Hæstaréttar sagði lögmaðurinn á Lex sig frá málinu og Jóhannes tók við því að beiðni forstjóra Hörpu. Svo fór að Harpa vann málið í Hæstarétti.

Í kjölfarið krafðist stjórn Lögmannafélags Íslands að úrskurðarnefndin legði mat á hvort Jóhannes hefði brotið gegn 11. gr. siðareglna lögmanna. Samkvæmt henni skal lögmaður varast að taka að sér nýjan skjólstæðing ef hagsmunir hans fá ekki samrýmst hagsmunum skjólstæðings lögmanns á sömu stofu.

Úrskurðarnefndin benti á að fyrir lægi að deilendur málsins, Harpa og Reykjavíkurborg, hefðu verið fyllilega upplýstir um að lögmenn á sömu lögmannsstofu gættu hagsmuna hvors þeirra fyrir sig. Þeir hefðu ekki lagst gegn tilhöguninni. Virðist ekkert fram komið um að með nokkrum hætti hafi verið brotið gegn hagsmunum kæranda, stjórnar Lögmannafélagsins, eða lögmanna yfirleitt með að Jóhannes tæki að sér málið.

Jóhannes segir í samtali við blaðið að hann sé sammála túlkun nefndarinnar. Hann hefði ekki tekið málið að sér nema af því að allir hlutaðeigandi samþykktu það sérstaklega og Harpa var í þröngri stöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×