Viðskipti innlent

Ásta Dís og Jakob Már ráðin lektorar hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Atli Ísleifsson skrifar
Ásta Dís Óladóttir og Jakob Már Ásmundsson.
Ásta Dís Óladóttir og Jakob Már Ásmundsson. Háskóli Íslands.
Ásta Dís Óladóttir og Jakob Már Ásmundsson hafa verið ráðin lektorar hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands til fimm ára frá og með 1. júlí næstkomandi. Ásta Dís mun verða lektor í alþjóðaviðskiptum og Jakob Már í fjármálum.

Í tilkynningu frá skólanum segir að Ásta Dís sé með BA-gráðu í félagsfræði, meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og doktorspróf í alþjóðlegum viðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS).

„Ásta Dís var framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, dósent í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst og forseti Viðskiptadeildar, en hún var fyrst kvenna til að gegna stöðu deildarforseta í viðskiptadeild háskóla hér á landi.

Áður var hún aðjúnkt við Viðskipta-og hagfræðideild Háskóla Íslands ásamt því sem hún gegndi stöðu markaðs- og kynningarstjóra deildarinnar í um 4 ár. Þá hefur hún sinnt stundakennslu við Háskólann í Reykjavík og hefur starfað sem kennari og rannsakandi við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.

Ásta hefur víðtæka stjórnunarreynslu og hefur setið í stjórnum og verið stjórnarformaður fjölmargra fyrirtækja, bæði hér á landi og erlendis.  Þá hefur hún gegnt trúnaðarstörfum og setið í ýmsum nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, átt sæti í Háskólaráði Háskólans á Bifröst auk þess að sitja í endurskoðunarnefndum t.a.m. VÍS og Landsvirkjunar.

Jakob Már lauk doktorsnámi í iðnaðarverkfræði hjá Purdue University árið 2002. Árið 2000 útskrifaðist hann með MA-gráðu í iðnaðarverkfræði frá University of Illinois og BS-gráðu í iðnaðar- og vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1998.

Jakob starfaði áður m.a. hjá Straumi fjárfestingarbanka fyrst sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs frá 2011 til 2013 og síðar sem forstjóri frá 2013 til 2015. Jakob var framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs hjá ALMC hf. 2009 til 2013 og framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Straumi-Burðarás á árunum 2005 til 2009. Þá starfaði Jakob hjá Intel Corporation frá 2003 til 2005. Jakob sat í stjórn Samtaka fjármálafyrirtækja frá árinu 2013 til 2015 og situr í dag í stjórn Solid Clouds ehf. og Jakás ehf. auk þess að vera nefndarmaður í prófnefnd verðbréfaviðskipta. Þá situr Jakob í stjórn Arion banka,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×