Innlent

Manndráp í Mosfellsdal: Tveir bílar haldlagðir sem tengjast þeim handteknu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
 Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er rannsókn málsins umfangsmikil.
Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er rannsókn málsins umfangsmikil. Vísir/Eyþór

Yfirheyrslur yfir þeim sex sem handtekin voru í kvöld vegna manndráps í Mosfellsdal eru hafnar, en karlmaður á fertugsaldri var úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás við bæinn Æsustaði. Lögreglan hefur nú þegar yfirheyrt vitni vegna málsins. Þá eru tveir bílar sem lögregla lagði hald á við handtökur til rannsóknar.

„Það er verið að yfirheyra þetta fólk sem er handtekið og við erum búin að yfirheyra vitni. Við munum yfirheyra eitthvað fram eftir nóttu,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, í samtali við Vísi.

Lögreglan fjarlægði pallbíl merktan fyrirtækinu Dogsledding Iceland af vettvangi í Mosfellsdal.
„Hann tengist þessu fólki sem var handtekið,“ segir Grímur.
Hluti fólksins var handtekið á vettvangi en aðrir á Vesturlandsvegi. Þar var lagt hald á annan bíl að sögn Gríms.

Enn er ekki ljóst hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir sexmenningunum. Grímur sagði í samtali við Vísi fyrr í kvöld að ákvörðun um það verði tekin í framhaldi af yfirheyrslum. 

Öll þau handteknu, fimm karlmenn og ein kona, hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning um árásina klukkan 18:24 og fór fjölmennt lið lögreglu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra, slökkviliði og sjúkraflutningafólki á vettvang. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er rannsókn málsins umfangsmikil.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.