Enski boltinn

Nýi Liverpool-maðurinn raðar áfram inn mörkum og Englendingar í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominic Solanke fagnar öðru marka sinna.
Dominic Solanke fagnar öðru marka sinna. Vísir/Getty
Enska tuttugu ára landsliðið komst í dag í úrslitaleikinn á heimsmeistaramóti U20 í Suður-Kóreu eftir 3-1 sigur á Ítalíu í undanúrslitaleiknum.

Englendingar mæta Venesúela í úrslitaleiknum á sunnudaginn kemur. Þetta er í fyrsta sinn í 51 ár sem enskt landslið kemst í úrslitaleik á heimsmeistaramóti eða síðan að England vann HM karla á heimavelli 1966.

England hefur aldrei áður komist svona langt í HM tuttugu ára landsliða en árið 1993 varð enska 20 ára liðið í þriðja sæti. Serbar eru ríkjandi meistarar en það er ljóst að nýtt nafn verður skrifað á bikarinn því Venesúela hefur heldur ekki unnið HM U20 áður.

Dominic Solanke, sem hefur ákveðið að fara til Liverpool í sumar, hélt áfram að raða inn mörkum en hann skoraði tvívegi í undanúrslitaleiknum eftir að hafa skorað sigurmarkið á móti Mexíkó í átta liða úrslitunum.

Solanke var búinn með samning sinn hjá Chelsea en ákvað að yfirgefa félagið og semja frekar við Liverpool. Hann mætir því sjóðheitur til Liverpool þegar undirbúningstímabilið hefst í júlímánuði.

Dominic Solanke er nú annar markahæsti maður mótsins með fjögur mörk en markahæstur er Ítalinn Riccardo Orsolini sem kom ítalska liðinu í 1-0 á móti Englandi með sínu fimmta marki á mótinu.

Riccardo Orsolini kom Ítalíu í 1-0 strax á 2. mínútu leiksins en Dominic Solanke jafnaði metin á 66. mínútu og innsiglaði síðan sigurinn á 88. mínútu eftir að Everton-maðurinn Ademola Lookman hafði komið Englandi í 2-1 á 77. mínútu.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×