Erlent

Prinsessan hleypti af byssu of nálægt forsætisráðherra Belgíu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Augnablikið örlagaríka
Augnablikið örlagaríka Vísir/AFP
Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, þurfti að leita sér læknisaðstoðar eftir að Astrid prinsessa hleypti af rásbyssu of nálægt forsætisráðherranum. The Guardian greinir frá.

Astrid, sem er yngsta systir, Fillipusar konungs Belgíu, ræsti hið árlega 20 kílómetra hlaup í Brussel á sunnudaginn, við hlið Michel.

Á myndum má greinilega sjá að Michel, sem og öðrum í grennd, brá í brún þegar Astrid hleypti af rásbyssunni.

Daginn eftir kom hins vegar í ljós að heyrn forsætisráðherrans hafði skaddast. Leitaði hann til læknis og samkvæmt læknisráði má Michel ekki fara til vinnu í dag.

Óvíst er hvort heyrnin hafi skaddast til frambúðar en talsmaður forsætisráðherrans segir að hann þurfi að leita sér læknismeðferðar út vikuna vegna atviksins.

Belgíska konungsfjölskyldan hefur ekki tjáð sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×