Enski boltinn

Wenger fær nýjan tveggja ára samning

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger er ekki að fara neitt.
Arsene Wenger er ekki að fara neitt. vísir/getty
Arsene Wenger er ekki að láta af störfum sem knattspyrnustjóri Arsenal. Þvert á móti hefur hann komist að samkomulagi um nýjan tveggja ára samning en enskir miðlar keppast nú við að greina frá þessu.

Wenger hitti Stan Kroenke, eiganda félagsins, á fundi í dag og varð niðurstaðan sú að hann myndi ekki stíga til hliðar eins og svo margir stuðningsmenn liðsins vilja sjá. Hann fær nýjan tveggja ára samning sem verður kynntur formlega á morgun.

Wenger stýrði Arsenal til þriðja bikarmeistaratitilsins á síðustu fjórum árum síðastliðinn laugardag en liðið hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina síðan árið 2004 og aðeins einu sinni á ríflega 20 ára ferli Frakkans hjá félaginu komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Í fyrsta sinn í 19 ár verður Arsenal ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð en liðið hafnaði í fimmta sæti í ensku úrvalsdeildinni. Þá féll liðið úr leik í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár, sjötta tímabilið í röð.

Henry Winter, einn fremsti og virtasti fótboltablaðamaður Englands, telur þessa ákvörðun Kroenke ekki góða en hann sér ekki fram á að Arsenal nálgist titilbaráttuna með Wenger í brúnni.

„Er Wenger að fara að vinna ensku úrvalsdeildina á næstu tveimur árum eða Meistaradeildina árið 2019 (ef hann þá kemst í hana)? Það er mjög ólíklegt. Félagið heldur áfram að fara niður á við,“ segir hann á Twitter-síðu sinni og bætir við:

„Ríkt og frægt félag eins og Arsenal með stóran og ástríðufullan stuðningsmannahóp ætti að vera að berjast um eitthvað annað og stærra en enska bikarinn. Arsenal er að fara niður á við,“ segir Henry Winter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×