Viðskipti innlent

Þetta eru hóparnir í Startup Reykjavík í ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hópurinn sem tók þátt í Startup Reykjavík síðasta sumar.
Hópurinn sem tók þátt í Startup Reykjavík síðasta sumar. Startup Reykjavík
Tíu fyrirtæki hafa verið valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavík sem fer fram í sjötta skipti í sumar.

Alls sóttu 150 hópar um að fá að vera með í hraðlinum í ár en hann gerir frumkvöðlum kleift að vinna að hugmyndum sínum í 10 vikur undir handleiðslu sérfræðinga.

Startup Reykjavík er samstarfsverkefni Icelandic Startups og Arion banka, sem fjárfestir í fyrirtækunum sem taka þátt í verkefninu fyrir 2,4 milljónir króna gegn 6% eignarhlut.

Alls hafa 60 teymi verið valin til þátttöku frá því að verkefnið hófst árið 2012 en Startup Reykjavík var valinn besti viðskipahraðall Norðurlanda árið 2015 og besti viðskiptahraðallinn á Íslandi árin 2015 og 2016.

Hóparnir sem taka þátt í ár og hugmyndirnar að baki fyrirtækjunum þeirra eru eftirfarandi.

Bone & Marrow

Heilsu- og matvælafyrirtæki sem leitar í smiðju forfeðra eftir æskilegri næringu handa nútímamanninum.

Data Plato

Sýndar-fjármálastjóri sem veitir fyrirtækjum aðstoð við stjórnun fjármála með nýtingu gervigreindar.

Itogha

Greina ákveðna áhættuþætti sem tengjast lífstílssjúkdómum með einföldum prófum, þar á meðal hjarta- og æðasjúkdóma. Itogha býður einnig upp á matvæli sem þróuð hafa verið í samstarfi við vísindamenn og matreiðslufólk og eiga að draga verulega úr líkum á lífstílssjúkdómum.

Myrkur

Leikjafyrirtæki sem vinnur nú að hönnun og þróun á nýjum ævintýrahlutverkaleik.

My Shopover

Hugbúnaður sem gerir ferðamönnum kleift að tengjast heimamanni eða verslunarráðgjafa og fá ráðleggingar varðandi verslun á svæðinu.

Maul

Hugbúnaður sem í krafti fjöldans gerir starfsmönnum ólíkra vinnustaða kleift að panta daglega hádegismat víðs vegar frá og sendir á staðinn.

Porcelain Fortress

Tölvuleikjastúdíó sem leggur áherslu á að gera skemmtilega, litla og vandaði leiki fyrir PC og leikjatölvur.

Flow Education

Flow er heildstætt einstaklingsmiðað námskerfi sem byggt er á nútímatækni og leiðandi kenningum í sálfræði til að hraða fyrir námi barna.

Safe Seat

SAFE Seat er fjaðrandi bátasæti sem verndar hryggsúluna í erfiðu sjólagi.

Zifra Tech

Þróa minniskort sem dulkóðar upptökur á rauntíma. Í upphafi er horft til fjölmiðlafólks sem þarf að vernda sig, sögur sínar og heimildarmenn.

Áhugasamir geta fylgst með framvindu sprotafyrirtækjanna og opnum viðburðum í sumar á Facebooksíðu verkefnisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×