Erlent

Hollendingar samþykkja loks viðskiptasamning ESB og Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir samninginn færa Úkraínu nær Evrópu.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir samninginn færa Úkraínu nær Evrópu. Vísir/AFP
Öldungadeild hollenska þingið samþykkti í dag viðskiptasamning Evrópusambandsins og Úkraínu. Þetta þýðir að öll aðildarríki ESB hafa nú gefið grænt ljós á samninginn.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir samninginn færa Úkraínu nær Evrópu. „Atkvæðagreiðsla dagsins sendir skýr skilaboð frá Hollandi og Evrópusambandinu öllu til vina okkar í Úkraínu: Úkraína á heima í Evrópu. Framtíð Úkraínu er í Evrópu,“ segir Juncker.

Skrifað var undir samninginn árið 2014 en á vordögum 2016 höfnuðu Hollendingar samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Allt frá þeim degi hefur verið unnið að því að ná lausn í málinu og fá samninginn fullgildan án þess að þurfa að endurtaka staðfestingarferlið í öllum aðildarríkjunum.

Leiðtogar aðildarríkja ESB hafa lagt áherslu á að samningurinn þýði ekki að Úkraína fái stöðu umsóknarríkis. Sömuleiðis felur samningurinn ekki í sér að ESB-ríkin skuldbindi sig til að verja Úkraínu.

Öll aðildarríki höfðu samþykkt samninginn á sínum tíma en hollenskur hópur ESB-andstæðinga tókst að safna nægilegum fjölda undirskrifta til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Þar beið hollenska ríkisstjórnin lægri hlut, þó að atkvæðagreiðslan hafi ekki verið bindandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×