Viðskipti innlent

Áhugi fjárfesta á Leifsstöð eykst eftir tal um einkavæðingu

Haraldur Guðmundsson skrifar
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir starfsmannafjölda og fjölda farþega á Keflavíkurflugvelli hafa tvöfaldast á einungis tveimur árum.
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir starfsmannafjölda og fjölda farþega á Keflavíkurflugvelli hafa tvöfaldast á einungis tveimur árum. Vísir/Eyþór
Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir umræðu síðustu vikna um mögulega einkavæðingu Keflavíkurflugvallar hafa leitt til aukins áhuga erlendra fjárfesta á framvindu málsins. Forstjórinn segir ótækt ef aðskilja ætti tvo helstu tekjustrauma flugvallarins en ítrekar að það sé ákvörðun ríkisvaldsins hvort og þá hvernig völlurinn yrði seldur. Starfsfólk Isavia búi sig nú undir annamesta tíma ársins á sama tíma og Keflavíkurflugvöllur sé nýkominn í fimmta sæti af öllum flugvöllum Evrópu hvað varðar fjölda ferða til Norður-Ameríku.

„Ef farið verður út með flugvöllinn í einhvers konar einkavæðingu, sama hvernig hún verður, þá væri eðlilegt að það væri gert í opnu ferli á Evrópska efnahagssvæðinu. Þess vegna verða menn að átta sig á því að ferlið yrði opið og skýrt því mjög margir myndu fylgjast með þessu um alla Evrópu. Menn fylgjast með þessu nú þegar og við heyrum af áhuga flugvallafjárfesta á að koma og tala við okkur. Þessi umræða hefur leitt til þess að við erum farin að heyra meira en áður frá erlendum fjárfestum um hvort þeir megi koma í heimsókn og fá kynningu á fyrirtækinu. Þessir aðilar fylgjast vel með umræðunni hér á landi en mér vitanlega er ekkert komið í gang af alvöru,“ segir Björn Óli.

Tveir tekjustofnar

Umræðan sem Björn Óli vísar til hófst að nýju um miðjan maí með áliti meirihluta fjárlaganefndar Alþingis við þingsályktun um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022. Þar segir meirihlutinn að hann telji tímabært að opna umræðu um að ríkið „leiti leiða til að umbreyta því fjármagni sem bundið er í mannvirkjum í flugstöðinni í Keflavík og nota það til átaks í endurbótum samgöngumannvirkja“. Björn hefur síðan þá sagt það óráðlegt ef einungis hluti af rekstrinum yrði einkavæddur.

„Þegar flugvellir eru einkavæddir þá eru almennt þrjár leiðir sem farnar hafa verið. Ein leið er að útvista rekstrinum til lengri tíma, þannig að einhver ákveðinn aðili taki hann og eignirnar að sér og skili þeim svo aftur. Leið tvö er að fara með flugvöllinn á markað. Þriðji möguleikinn er að selja fyrirtækið í heild sinni eða að hluta,“ segir Björn Óli og bætir við að flugvellir hafi að jafnaði tvo megintekjustrauma.

„Annars vegar er um að ræða flugtengdar tekjur eða notendagjöldin sem flugfélögin greiða fyrir þjónustu við flugvélar og farþega og hins vegar tekjur vegna annarrar þjónustu eins og útleigu á verslunarrými eða notkun bílastæða. Þessir tveir tekjustraumar eru grunnur flugvallarrekstrar og þeir sem hafa áhuga á rekstri Keflavíkurflugvallar myndu alltaf leitast við að halda þeim. Það er ríkisvaldsins að ákveða hvort það vilji eiga flugvöllinn og rekstur hans eða ekki en mikilvægt er að tekjustreymið sé með þessum hætti og ekki æskilegt að búta það niður,“ segir Björn Óli.

Telur þú að Isavia geti staðið eitt undir öllum þeim fjárfestingum sem á að ráðast í innan fyrirtækisins á næstu árum?

„Isavia er bara eins og hvert annað fyrirtæki í rekstri og ef fyrirtæki telur sig ekki geta staðið undir fjárfestingum sem ætlunin er að ráðast í þá á það ekki að standa í þeim. Ég tel að Keflavíkurflugvöllur eins og hann er í dag geti staðið undir eðlilegum fjárfestingum. Ég tel að það skipti ekki máli í því sambandi hver eigi flugvöllinn því hann myndi alltaf þurfa að standa undir þeim fjárfestingum sem ráðast þarf í. Ef menn væru að kaupa sig inn í reksturinn, og horfandi á að þar væri mikil áhætta vegna þess að flugvöllurinn gæti ekki staðið undir slíkum fjárfestingum, þá myndu menn greiða lágt verð fyrir flugvöllinn.“

Að sögn Björns Óla keyptu erlendir ferðamenn áður lítið sem ekkert í verslun Fríhafnarinnar á leiðinni inn í landið. Það hefur nú breyst. Vísir/Eyþór
Nóg pláss eftir

Nú eruð þið í milljarðaframkvæmdum í Keflavík. Hvað ber þar hæst? „Mikilvægasta framkvæmdin sem við stöndum í núna er endurnýjun flugbrautakerfisins. Við ætluðum að gera það fyrst um 2008 og þá átti það að gerast helst á morgun. Svo kom hrunið og það frestaðist en við byrjuðum í fyrra og vonandi náum við að klára brautirnar í ár og það skiptir okkur öll máli að þær séu í góðu standi. Við framkvæmdirnar núna höfum við þurft að loka annarri brautinni á meðan við malbikum hina en þetta verður sennilega síðasta skiptið sem við munum fara þá leið. Næst þegar farið verður í þessa framkvæmd, eftir 15-20 ár, munum við vinna þetta meira í bútum og þá verða brautirnar líklega báðar opnar megnið af framkvæmdatímanum en þær verða þá styttri.“

Björn Óli nefnir einnig framkvæmdir við flugstöðina í Keflavík og að stærsta verkið þar sé stækkun suðurbyggingarinnar til norðurs. Henni er meðal annars ætlað að stækka svæðið undir vegabréfaeftirlitið en einnig er unnið að framkvæmdum við stæði undir sjö stórar breiðþotur.

„Spurningin fyrir framtíðina er hvað best sé að gera til næstu ára og áratuga, til dæmis hvort eigi fyrst að stækka núverandi flugstöðvarbyggingu eða hefja stækkun flugstöðvarinnar með stækkun austurfingursins svokallaða. Báðir þessir möguleikar eru stór verkefni, það er ekki komin niðurstaða um á hvorri framkvæmdinni við byrjum en ég held það sé líklegra að við byrjum á að stækka innritunarsalinn og svæðið fyrir vopnaleitina. Áður en ráðist var í stækkun flugstöðvarinnar 2004 náðu biðraðir innritunarfarþega stundum út úr byggingunni en við erum ekki komin þangað en við þyrftum að finna leið til að stækka aðstöðuna í norðurbyggingunni.“

Hafið þið þurft að neita flugfélögum um afgreiðslu sökum þess hversu mikil eftirspurnin er eftir flugstæðum? 

„Við sjáum ekki um úthlutun afgreiðslutíma, heldur er það óháður aðili. Sá aðili hefur gert fyrirtækjum ljóst að hér er ekkert laust á háannatíma. Aftur á móti eru enn lausir tímar eins og milli klukkan fimm á daginn og fram undir tíu að kvöldi og eins yfir miðjan daginn, frá níu til 14. Þá getur fólk fengið pláss en flugfélögin semja oft sín á milli og ná þannig að færa tímana til. Það er nóg pláss eftir í flugstöðinni en þarna er um að ræða þessa álagstíma. Það er ánægjulegt að sjá að tekist hefur að dreifa umferðinni betur yfir sólarhringinn og hafa bæði stóru flugfélögin á Keflavíkurflugvelli náð að dreifa betur úr umferðinni og fjölga farþegum mikið.“

Hefur styrking krónunnar haft áhrif á vöru- og veitingasölu hjá dótturfélaginu Fríhöfninni? 

„Það er ljóst að styrking krónunnar hefur áhrif og það er enginn að efast um það. Ferðamönnum finnst verðið á Keflavíkurflugvelli vera mjög hátt og það er orðið dýrt að vera á Íslandi. Ég var á ráðstefnu hér heima um daginn og þar voru allir að tala um hversu mikið þá langaði að koma aftur en að landið væri orðið ansi dýrt. Fyrir nokkrum árum keyptu erlendir ferðamennn nánast ekki neitt í Fríhöfninni á leiðinni inn í landið. Það hefur breyst en við erum aftur á móti ekki að sjá mjög mikla aukningu þegar kemur að vörum eins og áfengi nema hjá fámennum og afmörkuðum hópi.“

Óttast ekki uppþot

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði á fundi hjá flugvirktarráði í janúar að lítið þyrfti til að uppþot yrðu í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Ert þú sömu skoðunar? 

„Ég sat þennan fund og Ólafur Helgi var þarna að leggja áherslu á að hlutirnir yrðu að ganga. Við erum búin að vera í miklu samráði við lögregluna svo hún ráði við þennan mikla fjölda sem fer í gegnum flugvöllinn á álagstímum. Bæði ráðherrar og þingið tóku vel í beiðni Ólafs um aukningu hjá lögreglunni og settu í þetta ef ég man rétt um 230 milljónir umfram það sem var á áætlun. Varðandi mannafla er lögreglan því þokkalega sett fyrir sumarið en lögreglan er einn mikilvægasti hlekkurinn í þessu streymi ferðamanna á milli heimsálfanna en Ólafur var þarna eins og hann gerir stundum að tala svo menn skilji. Það sem hann hafði áhyggjur af var hvenær suðurbyggingin yrði opnuð fyrir vegabréfaeftirlitið, þar sem er orðið mjög þröngt, en það er á áætlun að hún verði opnuð rétt fyrir miðjan júní. Þá myndast aukið pláss og raðir eiga ekki að ná niður að rúllustiganum. Nú fáum við hópinn þangað upp og tökum líka í notkun sjálfvirk vegabréfahlið eins og fólk hefur eflaust séð á flugvöllum erlendis. Og nú geturðu farið í gegnum vegabréfaeftirlit án þess endilega að ræða við lögreglumenn með nýjum vegabréfum. Þá mun fjöldinn sem fer í gegnum vegabréfaeftirlit aukast úr 2.600 manns á klukkustund í 4.000 og hraðinn mun því aukast mikið.“

Hvað hafið þið gert til að mæta þessum auknu umsvifum sem hafa fylgt fjölgun ferðamanna síðustu ár? 

„Við höfum auðvitað stækkað flugstöðina mikið, fjölgað flugvélastæðum og aukið sjálfvirkni. En svo höfum við einnig fjölgað starfsfólki mikið, sérstaklega í flugvernd og þar höfum við sett okkur ákveðin markmið um að halda biðtíma farþega í lágmarki. Kröfur til flugverndar og öryggis eru alltaf að aukast og núna sem dæmi er umræðan um hvort Bandaríkjamenn banni fartölvu í flugi til og frá Bandaríkjunum. Á sama tíma hefur fjöldinn aukist og við höfum því verið að bæta við okkur mikið af fólki og atvinnuleysi á Suðurnesjum er orðið eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. Við höfum sett upp nýjan leitunarbúnað ­þannig að hraðinn í gegn er orðinn mun meiri. Við erum líka búin að gera annað og það er að færa starfsfólk í gegnumlýsingu inn í rólegt og hljóðlátt herbergi og standa þau nú ekki lengur frammi. Allt þetta lýtur að því að menn geti unnið betur og hraðar. Ég held að okkur hafi tekist núna að koma þessu í lag og í rauninni á tveimur árum hefur starfsmanna- og farþegafjöldi tvöfaldast.“

Hvernig hefur gengið að fá fólk í vinnu? 

„Það hefur gengið vel og við höfum fengið fjölda góðra umsókna. Hér sóttu yfir þúsund manns um störf fyrir sumarið á meðan við þurftum ekki nema um 400. Við teljum okkur vera samkeppnisfær í launamálum og að utanumhald um starfsfólk sé gott. Flestir koma af Suðurnesjum en einnig fer fólki af höfuðborgarsvæðinu fjölgandi. Ég hitti nokkra stráka um daginn sem búa í Reykjavík og vinna uppi á velli sem voru að tala um að þeir þyrftu að fara að kaupa sér íbúðir á Suðurnejsum. Ég sagði: Bara endilega, strákar,“ segir Björn Óli og hlær.

Innritunarsalur flugstöðvarinnar verður stækkaður og vegabréfaeftirlitið einnig.
Nálgast Schiphol

Flugferðum frá Keflavík og til Norður-Ameríku hefur fjölgað mikið á síðustu árum og segir Björn Óli að þær séu nú fleiri en frá öllum hinum Norðurlöndunum samanlagt. Samkvæmt nýjustu tölum sé Keflavíkurflugvöllur nú í fimmta sæti af flugvöllum í Evrópu hvað varðar fjölda flugferða til Norður-Ameríku og í sjötta sæti ef einungis er horft á flug til Bandaríkjanna.

„Við eigum eftir að skoða þetta betur en það er ljóst að ef uppbyggingin árið 2018 heldur áfram munum við enn frekar styrkja okkar sæti þar og nálgast Schiphol-flugvöll í Amsterdam. Þetta kom okkur mjög á óvart, okkur flugvallanördunum hér innanhúss,“ segir Björn Óli.

„Þetta sýnir hvað Keflavíkurflugvöllur er orðinn mikilvægur tengivöllur og einn af þeim stóru og sýnir samkeppnina sem við erum í, eða við eins og t.d. Schiphol, Heath­row og Charles De Gaulle í París. Nú verðum við að sinna vel þeirri ábyrgð sem þessu fylgir.“

Nú er stjórn Isavia pólitískt skipuð. Hver er þín skoðun á því hvernig valið er í æðstu stjórn fyrirtækisins? 

„Það er alltaf umræða um hvort það er rétt eða rangt að skipa pólitískt í stjórnir. Það hefur kosti og galla. Kosturinn er að stjórnin hefur ákveðinn skilning á því hvaða stefnu ríkið, sem eigandi, hefur á ákveðnum tímapunkti. Hins vegar eiga stjórnarmenn alltaf, pólitískt skipaðir eða ekki, að hafa hag félagsins fyrir brjósti. Mín reynsla hefur verið að stjórnarmenn hjá Isavia hafa alltaf haft hag félagsins í fyrirrúmi og það hefur leitt til þess að ég hef ekki neina sérstaka djúpa skoðun á þessu.“

En þið eruð þá jafnvel að fá inn fólk sem hefur litla þekkingu á flugvallarekstri? 

„Það sem menn þurfa fyrst og fremst að hafa í huga sem fara inn í svona stjórnir er að þú þarft að hafa ákveðna rekstrarþekkingu og það eru afar fáir aðilar sem eru með þekkingu á þessu umhverfi sem við vinnum í. Menn með flugvallareynslu hér á landi eru ekki margir og þetta er ákveðin sérhæfing. Ef við ætluðum að fá sérfræðinga í þeim málum þyrftum við líklega að leita erlendis. Annars snýr stjórnarstarf fyrst og fremst að góðri eftirfylgni og yfirsýn yfir rekstur og fjármál félagsins. Þegar því er fylgt hef ég ekki miklar áhyggjur.“

Isavia og stjórnendur fyrirtækisins hafa verið gagnrýnd fyrir ákveðnar ákvarðanir síðustu ár. Finnst þér sú gagnrýni hafa verið ósanngjörn eða ómálefnaleg? 

„Isavia er fyrirtæki sem er grunnur að einni stærstu atvinnugrein landsins. Ef Isavia virkar ekki vel þá gildir það sama um greinina. Ef við gerum mistök hefur það afleiðingar og því á að fylgjast með okkur. Svo er hægt að velta því upp hvað er eðlileg gagnrýni og hvað ekki. Starfsfólk fyrirtækisins hefur gert alveg ótrúlega hluti á öllum sviðum sem fylgja rekstrinum og það eru allir að standa sig rosalega vel. Aftur á móti gerist það sundum að lítil mál eða atvik sem fólk gerir athugasemd við eru blásin út. En í stóru myndinni, ef við náum að uppfylla markmið Isavia á faglegan hátt, þá erum við að standa okkur,“ segir Björn Óli.

„Við erum oft skömmuð fyrir það að færa ekki pening frá Keflavík til innanlandskerfisins. Það er okkur aftur á móti ekki heimilt að gera. Það hefur verið ákvörðun eigandans að tekjur af Keflavíkurflugvelli séu notaðar til uppbyggingar þar. Ef ákveðið verður að fyrirtækið greiði arð, þá fer sá arður beint í ríkissjóð. Það er ákvörðun Alþingis en ekki Isavia hvernig fjármagna á uppbyggingu innanlandsflugvallakerfisins.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×