Íslenski boltinn

Andri Rúnar hætti að horfa á NBA á nóttunni til að verða betri leikmaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason.
Andri Rúnar Bjarnason hefur slegið í gegn með Grindavík í Pepsi-deild karla og skorað fimm mörk á fyrsta mánuði tímabilsins - þar af fjögur í síðustu tveimur leikjum.

Grindavík vann þá 3-2 sigur á ÍA á útivelli og skellti svo sterku liði Vals á heimavelli, 1-0.

Andri Rúnar er Bolvíkingur og lék með BÍ/Bolungarvík í upphafi ferilsins, meðal annars undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar.

„Það var skrautlegt og hefði mátt vera betra fyrir mig persónulega. Við vorum með besta hópinn í (1.) deildinni þá og áttum að fara upp. En við vorum ekki nógu góðir,“ sagði hann í samtali við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

Andri Rúnar hélt svo til Víkings Reykjavíkur en fékk fá tækifæri síðasta sumar. Hann var lánaður til Grindavíkur og gekk til liðs við félagið í vetur. Þá ákvað hann að taka aðeins til hjá sér til að geta æft betur.

„Ég er til dæmis mikill áhugamaður um NBA en hætti að horfa á það um næturnar því ég vildi sofa almennilega. Ég hugsaði svo mikið um hvað ég borðaði, æfði aukalega og hugsaði almennt betur um mig,“ sagði Andri Rúnar.

Viðtalið allt má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×