Enski boltinn

Wenger búinn að skrifa undir nýjan samning

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger er ekki að fara neitt.
Arsene Wenger er ekki að fara neitt. vísir/getty
Arsene Wenger er búinn að skrifa undir nýjan samning hjá Arsenal og verður því áfram knattspyrnustjóri félagsins næstu tvö árin. David Ornstein, fréttamaður BBC, greinir frá þessu á Twitter.

Framtíð Wengers var óljós eftir að honum mistókst í fyrsta sinn á ferlinum að koma Arsenal í Meistaradeildina en liðið hafnaði í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Margir stuðningsmenn Arsenal vilja sjá Frakkann yfirgefa félagið en hann hefur ekki orðið Englandsmeistari síðan 2004. Wenger hefur þó stýrt liðinu til þriggja bikarmeistaratitla á síðustu fjórum árum.

Wenger tók við Arsenal árið 1996 og vann ellefu af 16 titlum sínum með liðið á fyrstu tíu árunum en minna hefur verið um verðlaun síðan. Hann hefur stýrt Arsenal í 790 leikjum í ensku úrvalsdeildinni, 20 færri en Sir Alex Ferguson gerði hjá Manchester United á sínum tíma.

Franski knattspyrnustjórinn hitti Stan Kroenke, eiganda Arsenal, í gær þar sem gengið var frá þessum nýja samningi en Ornstein segir að þetta sé ekkert endilega síðasti samningurinn sem Wenger gerir við Arsenal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×